Héraðsdómur - óheimilt að verðtryggja lán með gengi erlendra gjaldmiðla - Landssamband smábátaeigenda

Héraðsdómur - óheimilt að verðtryggja lán með gengi erlendra gjaldmiðlaHér á heimasíðunni var hinn 12. nóvember sl. fjallað um málþing Orator um gengislán.  Þar leiddi Eyvindur G. Gunnarsson lektor við lagadeild HÍ sterk rök að því að gengislán sem almenningur hefði tekið á undanförnum árum væru í raun íslensk lán.  Þau hefðu verið greidd út í krónum og greitt af þeim í krónum og því óheimilt að „verðtryggja“ þau með gengi erlendra gjaldmiðla.

 

Frétt og umfjöllun um málefnið vakti mikla athygli á sínum tíma og var því beðið með óþreyju eftir dómi í sambærilegu máli.

 

Sl. föstudag 12. febrúar birti Héraðsdómur Reykjavíkur dóm sem staðfestir skoðanir Eyvindar.   Í málinu stefndi Lýsing hf tveimur einstaklingum til greiðslu gengistryggðarar skuldar samkvæmt kaupleigusamningi um bifreið.   Deilt var um hvort svokölluð gengistrygging væri andstæð lögum 38/2001 um vexti og verðtryggingu. 

 

Í III. kafla dómsins segir m.a. (leturbreyting er LS):

„Lögmæti tengingar í lánasamningi aðila við gengi erlendra gjaldmiðla eða „myntkörfu“ veltur á því hvort lán hafi verið veitt í íslenskum krónum og ef svo er hvort viðmiðun við erlenda gjaldmiðla teljist vera „verðtrygging“ í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001.

Stefnandi heldur því fram að með kaupleigusamningnum hafi hann lánað stefnda „erlent fé með svonefndri myntkörfu“, eins og segir í sókn stefnanda. Því til stuðnings vísar hann til ákvæða samningsins um gengistryggingu, eigin yfirlits um gjaldeyrismillifærslur og innheimtuseðla sem hann hefur lagt fram. Við mat á því hvort um lán í erlendri mynt hafi verið að ræða verður einungis horft til samnings aðila enda getur niðurstaðan ekki ráðist af því hvort stefnandi hafi fjármagnað lánafyrirgreiðslu sína á innlendum eða erlendum lánsfjármarkaði.

Stefnandi er sérfróður um lánaviðskipti og ber hallann af óskýrleika samningsins. Hann ber þannig, gegn andmælum stefnda, sönnunarbyrði fyrir því að lán hafi verið veitt í erlendum gjaldmiðli. Það er niðurstaða dómsins að stefnandi hafi ekki sannað þá staðhæfingu. Samningur aðila er í íslenskum krónum. Kaupverð bifreiðarinnar er í íslenskum krónum og ekki verður annað ráðið af samningi aðila en að seljandi bifreiðarinnar hafi fengið greiðslu frá stefnanda í íslenskum krónum. Þá verður leiguverð innheimt í íslenskum krónum samkvæmt 7. gr. samningsins. Samningurinn telst því vera í íslenskum krónum í skilningi 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Kemur þá til skoðunar hvort tenging samnings í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla teljist vera verðtrygging í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001, þ.e. 13. og. 14. gr. þeirra, en ákvæðin eiga einungis við um skuldbindingar þar sem greiðslur skulu verðtryggðar. Í 13 gr. segir að með verðtryggingu sé átt við breytingu á hlutfalli við innlenda verðvísitölu og í 14. gr. er heimild til verðtryggingar afmörkuð við vísitölu neysluverðs. Verðtrygging samkvæmt VI. kafla er þó ekki alfarið bundin við vísitölur sem mæla breytingar á almennu verðlagi, þar sem heimilt er samkvæmt 2. mgr. 14. gr., að miða í lánasamningi við innlenda eða erlenda hlutabréfavísitölu eða safn slíkra vísitalna. Gefur sú heimild vísbendingu um að hugtakið „verðtrygging“ í VI. kafla skuli ekki sæta þröngri túlkun.

Vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. lög nr. 13/1995, sem féllu úr gildi með gildistöku laga nr. 38/2001, höfðu að geyma rýmri ákvæði um verðtryggingu skuldbindinga. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga giltu ákvæði V. kafla laganna um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár „ ... um skuldbindingar um sparifé og lánsfé í íslenskum krónum þar sem skuldari lofar að greiða peninga og þar sem áskilið er að greiðslurnar skuli breytast í hlutfalli við verðvísitölu eða vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðli, sbr. 21. gr.“ Það var skilyrði verðtryggingar samkvæmt 21. gr. laganna að grundvöllur hennar væri annað hvort vísitala neysluverðs eða „vísitala gengis á erlendum gjaldmiðli eða samsettum gjaldmiðlum sem Seðlabanki Íslands reiknar og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði.“

Viðskiptaráðherra skipaði árið 2000 nefnd til að endurskoða vaxtalög nr. 25/1987 og lagði fram frumvarp á 126. löggjafarþingi sem varð að lögum nr. 38/2001. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir: „Þær breytingar sem lagðar eru til að gerðar verði á verðtryggingarkafla vaxtalaga eru eftir farandi: Heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla eru felldar niður ...“ Í athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins segir: „Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður ...“ Um 13. og 14. gr. segir: „Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi”. Sami skilningur kom fram í umræðum á Alþingi um málið og engar breytingar voru gerðar á fyrrnefndum ákvæðum frumvarpsins í meðförum Alþingis.

Samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 13/1995, náði „verðtrygging“ einnig til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Núgildandi vaxtalögum var ekki ætlað að þrengja það hugtak og auka heimildir til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Lögunum var þvert á móti ætlað að útiloka að skuldbindingar í íslenskum krónum væru tengdar erlendum gjaldmiðlum. Tenging skuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla telst því verðtrygging í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Enda þótt lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla þá þykir samkvæmt framanrituðu sýnt að með þeim hafi verið felld úr gildi heimild til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Óhjákvæmilegt er að líta til vilja löggjafans við túlkun laganna. Grundvöllur verðtryggingar samkvæmt samningi aðila, þ.e. ákvæði 4. og 7. gr. samningsins um gengistryggingu, er því í andstöðu við VI. kafla laga 38/2001 og því ógild. Skiptir þá hvorki máli hvort eftirlitsaðilar, eins og Seðlabanki og Fjármálaeftirlit, hafi vitað af samningunum og ekki gert athugasemdir né lögbundin úrræði eða samkomulag stjórnvalda við fjármálafyrirtæki til létta greiðslubyrði fólks í svipaðri stöðu og stefndi, eins og stefnandi byggir á. Samningurinn er á hinn bóginn ekki ógildur í heild sinni eins og stefndi heldur fram.“

Áslaug Björgvinsdóttir, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn.


Mikill meirihluti lána hjá félagsmönnum LS eru í erlendri mynt.  Þrátt fyrir fundi LS með lánastofnunum og ráðherrum hafa enn ekki fengist leiðréttingar með almennum aðgerðum á þeim lánum.  Dómurinn sem féll sl. föstudag er skref í átt til leiðréttingar verði niðurstaða Hæstaréttar sú sama og Héraðsdóms Reykjavíkur, en gera má ráð fyrir áfrýjun.  

Fylgst verður náið með framvindu þessa máls enda hagsmunir félagsmanna gríðarlegir varðandi niðurstöður þess.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...