Vísvitandi blekkingaleikur? - Landssamband smábátaeigenda

Vísvitandi blekkingaleikur?Í síðustu Fiskifréttum (25. mars) birtist eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason undir fyrirsögninni „Vísvitandi blekkingaleikur?“:

„Í síðasta tölublaði Fiskifrétta skrifaði Kristján Þórarinsson stofnvistfræðingur „Skoðun“ undir fyrirsögninni „Ábyrgar fiskveiðar eða vísvitandi ofveiði?“

Af öllu því sem skrifað hefur verið og sagt um veiðar á skötusel undanfarna mánuði nær grein hans dramatísku hámarki umræðunnar.  Í henni fer höfundur 62 ár aftur í tímann; tínir til lög um vísindalega verndun fiskimiðanna (1948), lokaútfærslu fiskveiðilögsögunnar í 200 mílur (1975) og baráttu Íslendinga fyrir alþjóðlega viðurkenndu forræði yfir fiskveiðiauðlindinni (1982-samþykkt Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna).

Ég hefði léttilega trúað því að þetta tilskrif kæmi frá áróðursmálaráðherra LÍÚ eða einhverri auglýsingastofu.  Sú staðreynd að hún komi frá eina vísindamanninum innan veggja stórútgerðarmanna er mikið áhyggjuefni.   

Orðspor í hættu

Tilefni greinarinnar er að í frumvarpi sjávarútvegsráðherra er að finna eftirfarandi: 

„Á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 hefur ráðherra til ráðstöfunar, auk aflaheimilda úthlutað á grundvelli laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, allt að 2000 lestir af skötusel hvort fiskveiðiár.“

Undir síðustu millifyrirsögninni, „Ábyrgar fiskveiðar og ímynd á alþjóðlegum markaði”,  fullyrðir greinarhöfundur að „verði frumvarpið að lögum muni það valda orðspori Íslendinga miklu tjóni, enda fylgist fiskkaupendur vel með því sem gerist í fiskveiðum okkar og fiskveiðistjórnun”.

Þetta eru stór orð og þarfnast nánari athugunar.

Veiðar og ráðgjöf

Hafrannsóknastofnunin gaf í fyrsta skipti út ráðgjöf  í skötusel fyrir fiskveiðiárið 2003/2004.  Sú ráðgjöf var upp á 1500 tonn.  Veiðin varð 1903 tonn, eða 27% umfram ráðgjöf.

Þrátt fyrir þessa umframveiði gaf stofnunin sömu ráðgjöf árið eftir, 1500 tonn.  Fiskveiðiárið 2004/2005 var veiðin 2420 tonn, eða 61% umfram. 

Nú mætti draga þá ályktun að draga færi til tíðinda.  Hver varð raunin?  Hafrannsóknastofnunin bætti í ráðgjöfina.  Fyrir fiskveiðiárið 2005/2006 lagði hún til 47% aukningu frá fyrra ári eða 2200 tonn.

Enn var veitt framyfir, í stað 2200 tonna urðu þau 2832, eða 29% framyfir.

Og áfram er haldið

Einhver kynni að halda að þessi mikla umframveiði þrjú ár í röð myndi leiða til niðurskurðar í tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar varðandi veiðar á skötusel fyrir fiskveiðiárið 2006/2007.  Sú varð ekki raunin.  Stofnunin lagði til það sama: 2200 tonn.  Veiðin?  2672 tonn - 21% umfram.

Árið eftir, fyrir fiskveiðiárið 2007/2008, endurtók Hafrannsóknastofnunin leikinn, þrátt fyrir alla umframveiðina, og lagði til 2200 tonn.  Veiðin var  2921 tonn, þriðjung - 33% umfram ráðgjöf.

Þessi upptalning er nú þegar orðin í meira lagi pínleg, en það þarf að klára söguna.

Hafrannsóknastofnunin lagði til fyrir fiskveiðiárið 2008/2009 heil 2500 tonn, hæstu tonnatölu frá 2003/2004.  Veidd voru 3444 tonn - 38% framyfir.  Heildarveiði umfram ráðgjöf Hafró nemur þannig alls 4.092 tonnum. 

Til að kóróna framantalið:  Stofnunin lagði til fyrir yfirstandandi fiskveiðiár (2009/2010): 2500 tonn.

Á allt þetta minnist Kristján ekki einu orði. 

Skötuselur umframafli.png

Áhyggjur erlendra fiskkaupenda

Ekki veit ég til þess að framangreind upptalning hafi valdið erlendum fiskkaupendum svefntruflunum.

Hvers vegna ættu þeir þá að hafa sérstakar áhyggjur af hugsanlegri aukningu í skötuselsveiðum samkvæmt frumvarpi sjávarútvegsráðherra?

Þessir sömu aðilar, sem fylgjast svona vel með því sem gerist hérlendis, samkvæmt fullyrðingu Kristjáns, ættu að vera þess meðvitaðir hvernig einni tegund er breytt í aðra innan kerfisins og hvernig ótal stærðir innan þess eru reiknaðar eftirá (VS afli, undirmálsafli, o.s.frv., o.s.frv.). 

Eða eru þeir blekktir með því að sjávarútvegsráðuneytið gefur út aflaheimildir í samræmi við tillögur Hafrannsóknastofnunarinnar, en „sveigjanleiki“  kerfisins síðan látinn vinna í kyrrþey við framúrkeyrsluna? 

Vita þeir að íslenskir frystitogarar vigta ekki enn þann dag í dag inn á vinnslulínurnar og eru þess vegna með u.þ.b. 10% skekkjumörk þegar kemur að útreikningi varðandi nýtingartölur til útreiknings á kvóta, t.d. í þorski?  

Hvernig sú staðreynd passar við lögin um vísindalega verndun fiskimiðanna, útfærsluna í 200 mílur og Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna læt ég öðrum eftir að útskýra“.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...