Fyrning aflaheimilda - Landssamband smábátaeigenda

Fyrning aflaheimildaÍ dag birtist í Morgunblaðinu eftirfarandi grein eftir Arthur Bogason, undir fyrirsögninni „Fyrning aflaheimilda":

Fyrning aflaheimilda er ein versta hugmynd sem ég hef nokkru sinni heyrt af. Fyrningarleiðin rýrir kerfisbundið tekjuhlið fyrirtækja í sjávarútvegi en skilur skuldirnar eftir. 
Fyrning aflaheimilda kemur verst við minnstu útgerðirnar. Í nánast öllum tilfellum er um að ræða lítil einstaklings- og/eða fjölskyldufyrirtæki sem gera aðrar og minni arðsemiskröfur en stórfyrirtækin. Litlu fyrirtækin geta t.d. ekki brugðist við með sókn utan lögsögu. Þau eru bundin heimamiðum. 

Því er haldið fram, trúlega með réttu, að útgefnar aflaheimildir verði nýttar þó fyrningarleið komi til framkvæmda. Tryggir það réttlæti - og þá hverra? 
Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hækkuðu skuldir útgerðarfyrirtækja um 100-180% eftir því í hvaða gjaldmiðli og á hvaða tíma lánin voru tekin. Samtímis lækkaði virði aflaheimilda um amk 100%. Aðilar sem áttu drjúgan hlut í sínum fyrirtækjum horfðu á eignarhlutinn hverfa eins og dögg fyrir sólu og standa nú eftir stórskuldugir. 

Ég skil vel reiði fólks í garð „sægreifa“ sem tóku þátt í bankabrjálæðinu og um tíma stjórn bankanna. Smábátaútgerðir landsins tóku þar engan þátt. Þar fóru og fara aðilar sem ráku og reka fyrirtæki sín af vinnuelju og samviskusemi. Trúandi því að fjárfestingar þeirra væru til frambúðar fyrir sig og sínar fjölskyldur. Sama á við um langflest önnur útgerðarfyrirtæki. 

Verði fyrningarleiðin farin hlýtur sú spurning að vakna hverjir séu best í stakk búnir til að bjóða í þær veiðiheimildir sem standa til boða. Varla eru það þeir sem nú standa í skuldasúpunni sem varð til við efnahagshrunið, þ.e. þeir sem veðjuðu á framtíð sína í sjávarútvegi, hvort heldur með fjárfestingum í aflaheimildum eða endurnýjun skipa og báta. 
Ætli það séu ekki frekar þeir sem seldu frá sér aflaheimildir þegar „best“ áraði. 

Er réttlætinu þar með fullnægt? 

Arthur Bogason Formaður Landssambands smábátaeigenda“
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...