Þyrlumálið þolir enga bið - skert fjármagn til Landhelgisgæslunnar ógnar öryggi sjómanna - Landssamband smábátaeigenda

Þyrlumálið þolir enga bið - skert fjármagn til Landhelgisgæslunnar ógnar öryggi sjómannaEftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 6. maí.  

Í undirbúinni utandagskrárumræðu á Alþingi sl. föstudag var rætt um öryggismál sjómanna. Málshefjandi var Ásbjörn Óttarsson og ræddi um þá hættu sem skapast hefur á hafinu þar sem öryggismálum sjómanna er ábótavant.  Skert fjármagn til Landhelgisgæslunnar leiðir til þess að ekki er hægt að halda úti tvöfaldri áhöfn á þyrlunum þannig að öryggisþjónustu við sjómenn sé sinnt með sómasamlegum hætti.  

Í ræðu dóms- og mannréttindamálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, kom fram að hún er ekki bjartsýn á að breyting verði þarna á, þar sem ekki sé til fjármagn til að kosta þjónustuna. Ráðherrann tók þó fram að reynt yrði áfram að leita allra leiða svo ásættanleg lausn fyndist. Margir þingmenn tóku þátt í umræðunni og lýstu áhyggjum sínum af því alvarlega ástandi sem upp er komið.  M.a. vildi varaformaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, að leitað yrði eftir samvinnu við aðrar þjóðir um rekstur þyrlu, varðskips og annarra öryggistækja.


Ályktun LS

Við þessa umræðu spurði ég við sjálfan mig: Er ástandið virkilega svona slæmt?  Svarið kom um hæl - það er staðreynd. Hvað er þá til ráða? Ekki er hægt að bjóða sjómönnum upp á að starfa við þessar aðstæður.  Í vangaveltum mínum minntist ég fundar í stjórn Landssambands smábátaeigenda (LS) fyrir 7 árum, 10. júlí 2003, þar sem rætt var um öryggismál sjómanna. Á þeim tíma var í umræðunni að efla þyrfti skipakost Landhelgisgæslunnar með smíði nýs varðskips. Samtímis var einnig töluverð óvissa um samstarf Gæslunnar og varnarliðsins um leit og björgun á hafinu. Miklar umræður urðu meðal stjórnarmanna um hvort öryggismálum sjómanna yrðu betur komið með smíði nýs varðskips eða á annan hátt.

Niðurstaða stjórnarfundarins varð þessi:  „Stjórn LS beinir því til stjórnvalda að fresta öllum ákvörðunum um smíði varðskips, en einbeita sér þess í stað að því að efla þyrlukost Landhelgisgæslunnar með kaupum á nýrri þyrlu. Í ljósi þeirrar óvissu sem nú ríkir í samstarfi Landhelgisgæslunnar og varnarliðsins ber að hraða þessari vinnu eins mikið og kostur er.“  


Smíði hafin á nýju varðskipi

Stjórnvöld urðu ekki við þessari samþykkt LS.  Ákvörðun var tekin um smíði á nýju varðskipi sem nú bíður nánast fullbúið í Chile. Væntanlega hefði það aldrei orðið ef menn hefðu séð það fyrir að varnarliðið mundi hverfa héðan af landinu með nánast engum fyrirvara árið 2006.

Það er hins vegar staðreynd að við erum í mjög erfiðum málum um þessar mundir. Efnahagshrunið hefur leitt yfir okkur aðstæður sem engan óraði fyrir. Í þeim vanda sem hér blasir við sé ég ekki margar leiðir til lausnar. Sú sem mér hugnast best er að dómsmálaráðherra hefji nú þegar viðræður við nágranna okkar um samstarf. Hvort hugsanlegt væri að einhver þeirra eða allar gætu ásamt Íslendingum komið að rekstri þyrlna við Norður-Atlantshaf. Ljóst er að nokkrar þjóðir hefðu þar beina hagsmuni, eins og Færeyingar, Norðmenn, Danir og Grænlendingar. Í framtíðinni gæti þetta samstarf ef af yrði jafnvel leitt af sér stofnun sameiginlegrar björgunarmiðstöðvar við N-Atlantshaf með aðsetur hér á landi. 


Varðskipið selt?

Önnur leið sem einnig er vert að íhuga er að afla fjár með sölu á nýbyggðu varðskipi. Mín skoðun er sú að það megi bíða ef það yrði til að koma þyrlumálunum í lag.

Ég vil hvetja Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra að kanna þessa möguleika,  auk þess að beita sér að alefli í að finna lausn á því brýna hagsmunamáli sjómanna og allrar þjóðarinnar að hér sé rekin öflug þyrlubjörgunarþjónusta.“

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. 

 
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...