Dragnótin á útleið úr nokkrum fjörðum - Landssamband smábátaeigenda

Dragnótin á útleið úr nokkrum fjörðumSjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að banna dragnótaveiðar í nokkrum fjörðum landsins og hyggst skoða fleiri svæði með það sama í huga.
Grunnslóðirnar sem nú um ræðir eru í Önundarfirði, Hrútafirði/Miðfirði, Skagafirði og Seyðisfirði/Loðmundarfirði. 

Allt frá stofnun Landssambands smábátaeigenda hefur félagið ályktað um að friða beri svæðið næst ströndinni fyrir dregnum veiðarfærum.  Lítið hefur áorkast í gegnum tíðina og verður því framtak sjávarútvegsráðherra nú að teljast til mikilla tíðinda.  LS fagnar þessari ákvörðun.

Því hefur verið haldið fram að sú skoðun smábátaeigenda að dregin veiðarfæri beri ekki að nota næst landi sé sprottin af illgirni og öfund.  Þá sé allt þetta tal runnið undan rifjum Landssambands smábátaeigenda.  

Í því ljósi er fróðlegt að glugga í gamlar heimildir.

Í bókinni „Sjósókn“, skrásettri af Jóni Thorarensen á endurminningum Erlends Björnssonar frá Breiðabólsstað á Áfltanesi er haft eftir þeim gamla:

„Árið eftir að fyrstu togararnir komu hér í Faxaflóa, hurfu þessi dýrmætu hlunnindi (kolaveiðar frá Bessastöðum og Breiðabólsstöðum) frá þessum tveim jörðum og verður sá skaði alltaf ómetanlegur“.

Erlendur fæddist árið 1865, eða nokkru fyrir stofnun Landssambands smábátaeigenda, árið 1985.

Til eru fjölmargar heimildir um svipaða afstöðu þeirra sem bjuggu við ströndina og horfðu upp á innrás troll- og dragnótaskipa og -báta á grunnmiðin.  Því fer fjarri að Landssamband smábátaeigenda sé upphaf þessarar umræðu.

Það er athyglisvert að lesa yfir þær athugasemdir sem sjávarútvegsráðherra fékk fyrir þá ákvörðun sem liggur fyrir af hans hendi.  Þar á meðal er að finna sameiginlega yfirlýsingu/ályktun frá LÍÚ, Samtökum dragnótamanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Sjómannasambandi Íslands og VM-Félagi vélstjóra og málmtæknimanna.  

Þessi sameiginlega yfirlýsing leiðir hugann að því hvort ekki sé kominn tími til að þessi félög renni saman í eitt.      

2 Athugasemdir

Mér finnst þessi samanburður skrítinn,þá var ekki aflamarkskerfi og svo finnst mér vera töluverður munur á dragnót og trolli.Ég velti fyrir mér svörum ráðherra þegar hann segir dragnótamenn oftúlka niðurstöður rannsókna Hafró á skaðleysi dragnótar á botninn og spyr hvort hann geti ekki notað svipuð rök á þorskinn?

Undirritaður hefur verið félagi í Kletti frá stofnunn og oft verið stoltur með sigra L.S í gegnum árin en ekki þennann því miður.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...