Leiguverð á ýsu lækkar - Landssamband smábátaeigenda

Leiguverð á ýsu lækkarMeðalverð á ýsu í leigu 15. júlí sl. var 140 kr/kg á móti 175 kr sama dag í júní.  Þessi þróun þarf ekki að koma á óvart þar sem mikið magn af ýsu er enn ónýtt.   Með því að blikka hér.pdf má sjá verðþróun á leigukvóta með ýsu miðað við 15. dag hvers mánaðar þessa fiskveiðiárs.

  

Allt stefnir í að um 10 þús. tonn nýtist ekki til verðmæta á yfirstandandi fiskveiðiári sem er mjög í takt við spá LS í upphafi þessa fiskveiðiárs.  Í bréfi LS til Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 8. júlí sl. var bent á þetta og þar m.a. vakin athygli á að meðalverð á óslægðri ýsu í júní hefði verið 306 kr/kg.  Samkvæmt því væri aflaverðmæti 10 þús. tonna 3 milljarðar og ætla mætti að útflutningsverðmæti væri um 6 milljarðar sem væri tvisvar sinnum meira en útflutningsverðmæti loðnuafurða 2009.  

Af þessu tilefni hefur LS ítrekað tillögu sína frá því í fyrra að ýsa sem veidd er á línu á fyrsta þriðjungi komandi fiskveiðiárs reiknist ekki til afla- eða krókaaflamarks, þó þannig að engum bát verði heimilt að veiða meir en 30% af ýsuafla sem hann veiddi á yfirstandandi fiskveiðiári.
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...