Fiskurinn með fýlusvipinn - Landssamband smábátaeigenda

Fiskurinn með fýlusvipinn


Fimmtudaginn 5. ágúst s.l. birtist eftirfarandi grein í Fiskifréttum eftir Arthur Bogason undir fyrirsögninni „Fiskur ársins - fiskurinn með fýlusvipinn“:

„Ástandið í hafinu við Ísland er gott. Þorskurinn dafnar, afli góður í flest veiðarfæri víðast hvar og nýjar fisktegundir gera sig heimakomnar. Þar fer fremstur í flokki makríllinn. Nú síðast sást til vaðandi túnfisks langt innan 200 mílnanna.

112 þúsund tonn af haugalygifiski

Fiskur ársins síðan 2007 er fiskurinn með fýlusvipinn; makríll. Nú gengur hann í miklu magni inn í íslenska efnahagslögsögu og gott betur, inni á flóum og fjörðum landhelginnar liggur hann og graðkar í sig fiskseiðum, síli og öðru æti. Í þokkabót veiðist hann úttroðinn af tveggja ára loðnu sem bera á uppi næstu loðnuvertíð. Hafrannsóknastofnunin hefur nýverið sýnt fram á að makríllinn hrygnir við landið. Í mínum huga er hringnum þar með lokað. Fiskur sem klekst út við Ísland og étur hér á sig gat er einfaldlega orðinn íslenskur nytjafiskur.

Ef ég man rétt þá fullyrtu samtök stórútgerðarmanna í Noregi og fleiri, þegar íslensk fiskiskip urðu fyrst vör við makríl í umtalsverðu magni við landið, að það væri haugalygi. Þetta væri bara trix til að ná í makrílkvóta. Árið 2008 veiddu Íslendingar 112 þúsund tonn af haugalygifiski.

Nú berast þær fréttir að samtök útgerðarmanna í norðanverðri Evrópu hamist á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í fiskveiðimálum um að grípa tafarlaust til hótana, þvingana og helst viðskiptabanna til að stöðva "rányrkju" Íslendinga á makríl. Gott og vel, það er þó alla vega komin viðurkenning á því að við tegundagreindum kvikindið rétt.

"He has it all wrong"

Síðastliðinn miðvikudagsmorgun hringdi síminn hjá mér fyrir allar aldir. Á línunni var einhver „live“ írskur útvarpsþáttur um fiskveiðar, þar sem mér var stillt upp gagnvart einhverjum forsvarsmanni fiskimannasamtaka á Írlandi, hvurs ég náði aldrei nafninu á í fyrirganginum. Sá hafði uppi stór orð gagnvart Íslendingum og krafðist þess að við hættum makrílveiðum tafarlaust. Við værum fullkomlega "óábyrgir", ógnuðum miklum og heilbrigðum makrílveiðum við Írland og Evrópusambandinu bæri skylda til að beita fullri hörku í málinu. Hann gleymdi reyndar að geta þess að Evrópusambandsþjóðirnar og Noregur ætla sér að veiða langt umfram það sem fiskifræðingar hafa lagt til.

Þær umframveiðar hljóta að vera stundaðar af það mikilli ábyrgð að engin ástæða er til að fjalla um það frekar.

Ég sagðist líta svo á að fyrst makríllinn gerði sig heimakominn í íslenskri lögsögu og æti hér þau fiskseiði og síli sem hann fyrirfyndi hlytu viðbrögð fiskveiðiþjóðar aðeins að vera ein: nákvæmlega þau sem Íslendingar hafa gripið til. Þá gat ég þess að búið væri að sýna fram á að makríll hrygni við landið. Á brast gamalkunnug klisja: það væri haugalygi.

Ég varpaði og fram þeirri spurningu hvort Írar væru ekki til í að taka þessar 4 eða 5 hundruð þúsund íslensku rolluskjátur á beit yfir sumarmánuðina og senda þær síðan heim á klakann rétt fyrir slátrun. Að sjálfsögðu voru viðbrögðin: "he has it all wrong".

Hárrétt ákvörðun

Eftir að þessum útvarpsþætti lauk sat ég hugsi. Er þetta samskiptaplanið sem bíður okkar fari svo að Ísland gangi í Evrópusambandið?

Nú grunar mig sterklega að útbreiðsla Fiskifrétta sé ekki mikil á Írlandi, en kannski einhver komi eftirfarandi til skila með haustskipum: Málflutningur annarra þjóða, nú síðast Íra, frá því að makríll fór að veiðast í umtalsverðu magni við Ísland hefur einkennst af því að makríllinn sé þeirra eign. Sé svo, vinsamlegast haldið honum þá heima hjá ykkur og hættið að senda hann á beit á íslenskt yfirráðasvæði.

Við íslensk yfirvöld vil ég segja: Það var hárrétt ákvörðun að leyfa makrílveiðar við landið hvað sem ráðleggingum fiskifræðinga í Evrópu líður.

En svo vill til að það er annar fiskistofn innan lögsögunnar sem þolir miklu meiri veiði en Hafrannsóknastofnunin leggur til og gefið hefur verið út að veiða megi á næsta fiskveiðiári. Það er þorskurinn. Það er góðæri hjá þorskinum og að sjálfsögðu á að nýta það. Í því sambandi getur sjávarútvegsráðherra hækkað aflaheimildir í þorski um tugi þúsunda tonna - og stuðst við gögn Hafrannsóknastofnunar við þá ákvörðun.   

2 Athugasemdir

Góð grein og á kjarnyrtu máli.
Miðað við hvað Makríllinn étur mikið er þá ekki rétt að rukka "eigandann" um fæðiskostnað. Þessi kostnaður hleypur væntanlega á tugum miljarða á ári.Bara svona innlegg í umræðuna. :)

Ég held að við værum betur komin án hans í lögsögunni.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...