Makrílveiðar strandveiðibáta - Landssamband smábátaeigenda

Makrílveiðar strandveiðibáta


Vegna fyrirspurna sem borist hafa á skrifstofu LS undanfarna daga skal bent á að samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja er strandveiðibátum heimilar makrílveiðar í banndögum.

Í tilkynningu sem er á forsíðu Fiskistofu stendur eftirfarandi orðrétt:

„Bátur með strandveiðileyfi þarf ekki sérstakt makrílveiðileyfi.
Reglur um strandveiðibáta gilda á makrílveiðum, þ.e. tilkynningar, heimilir veiðidagar, lengd veiðiferða, veiðisvæði o.þ.h.  Takmörkun um hámarksmagn á dag á ekki við um makrílafla.
Ekki er heimilt að sækja í aðrar tegundir en makríl á þeim dögum sem auglýstir eru sem„banndagar“ á strandveiðum.  Meðafli í kvótabundnum tegundum mun verða meðhöndlaður líkt og annar afli sem strandveiðibátar veiða umfram leyfilegt magn, þ.e. beitt verður álagningu vegna ólögmæts sjávarafla“.  

Í reglugerð sem gefin var út 19. júlí s.l. af sjávarútvegsráðuneytinu stendur orðrétt: „Þó er fiskiskipum sem hafa leyfi Fiskistofu til strandveiða heimilt að stunda makrílveiðar á línu og handfæri og skulu þær takmarkast af því heildarmagni sem ráðstafað er til línu- og handfæraveiða skv. 2. tl. 2. gr."

Þessi heildarafli var ákvarðaður 3000 tonn eins og fram kemur í fréttatilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu 15. júlí s.l.

Á svæðum A og B eru nú þegar skollnir á banndagar út ágústmánuð og frá og með þriðjudeginum 10. ágúst er sömu sögu að segja af svæði C.  

Samkvæmt núgildandi lögum er þeim sem stunduðu strandveiðar í sumar óheimilt að stunda veiðar samkvæmt öðrum veiðileyfum (aflamarksleyfi og krókaaflamarksleyfi).  

Flestir eiga erfitt með að sjá tilganginn með þessu lagaákvæði.  LS fór fram á þegar unnið var að lagasetningunni að menn gætu farið út úr strandveiðikerfinu með ákveðnum fyrirvara, t.d. tilkynnt sig út um mánaðarmót - og létt þar með á kerfinu fyrir þá sem eftir yrðu.  Með slíkri tilkynningu kæmust þeir ekki til baka í strandveiðikerfið það fiskveiðiárið.
  
Nú sitja þessir aðilar uppi með að vera í lögboðnu „fríi“ fram til loka fiskveiðiársins, aðilar sem annars gætu nýtt tímann í að veiða það sem þeir eiga eftir af kvótum sínum eða leigt til sín aflaheimildir, t.d. í ufsa.  Að óbreyttu er eini opni möguleikinn fyrir þessa aðila, samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum, að reyna sig við makrílveiðar.

    
       Makríll    

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...