Heimsmet hjá Sirrý ÍS, - 1.729 tonn - Landssamband smábátaeigenda

Heimsmet hjá Sirrý ÍS, - 1.729 tonnNýliðið fiskveiðiár verður áhöfn Sirrýjar ÍS örugglega ógleymanlegt.  Þeir settu glæsilegt heimsmet smábáta, heildarafli fiskveiðiársins 1.729 tonn og bættu fyrra heimsmet um 222 tonn sem Guðmundur Einarsson ÍS átti og var frá fiskveiðiárinu 2005/2006. 

 

Aflann fékk Sirrý í 297 róðrum og var meðaltalið því 5,8 tonn.  Mestur varð aflinn í janúar 224 tonn, þar sem meðaltal á hvern bala var 235 kg.

 

Á Sirrý eru 3 í áhöfn, 2 á sjó og einn hvílir 2 daga í senn.  Við beitningu starfa 8 manns.  

Skipstjóri á Sirrý ÍS er Sigurgeir Steinar Þórarinsson.

Þegar slegið var á þráðinn til Sigurgeirs og honum óskað til hamingju með árangurinn var hann inntur eftir því hvað væri honum efst í huga af miðunum á sl. fiskveiðiári.  Hann var skjótur til svars:  „Það er hversu óhemjumikið er af góðum þorski, hins vegar hef ég smá áhyggjur af steinbítnum, við veiddum nánast eingöngu mjög stóran steinbít, en urðum vart varir við smáan“, sagði Sigurgeir.  

 

Sigurgeir lagði áherslu á að svo miklum afla væri ekki hægt að ná nema valinn maður væri í hverri stöðu og kom á framfæri hrósi og þakklæti til áhafnar sinnar og beitningafólks.  

 

 

Með því að blikka Sirrý.pdf má sjá skiptingu aflans eftir mánuðum, dreifing róðra  og meðaltal hvers mánaðar.

  

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...