Hæstiréttur snýr við dómi Héraðsdóms í máli trillukarls gegn Sjúkratryggingu Íslands - Landssamband smábátaeigenda

Hæstiréttur snýr við dómi Héraðsdóms í máli trillukarls gegn Sjúkratryggingu ÍslandsSveinn Arason eigandi Beggu GK-717 varð fyrir því óhappi 23. júlí 2007 að sigla bát sínum upp í fjörugrjót á 11 mílna hraða.  Við höggið hlaut hann áverka í hálsi og baki og tognun á vinstri úlnlið sem leiddi til þess að hann varð óvinnufær í 4 mánuði.

Sveinn sótti um slysabætur til Sjúkratryggingar Íslands.  Sjúkratryggingin hafnaði honum um bætur á grundvelli þess að meiðsli hans hefðu ekki orðið við slys, heldur vegna þess að hann sofnaði við stjórnun bátsins.  Sveinn kærði til úrskurðarnefndar almannatrygginga, sem staðfesti niðurstöðu SÍ.

 Sveinn fór með málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur sem sýknaði Sjúkratryggingu Íslands.

 Nú hefur Hæstiréttur snúið við dómi Héraðsdóms og ógilt úrskurð úrskurðarnefndar almannatryggina og Sjúkratrygginga Íslands um að synja Sveini um greiðslu bóta úr slysatryggingu almannatrygginga.  Auk þess ákvað Hæstiréttur að SÍ skyldi greiða Sveini málskostnað í héraði og Hæstarétti samtals kr. 700 þús.

 

Í dómi Hæstaréttar segir m.a.:

 

Í dómi Hæstaréttar segir m.a.:

Deila málsaðila lýtur að því hvort tjón áfrýjanda hafi orðið við slys í merkingu 1. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007. Þar segir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.

Áfrýjandi byggir kröfu sína á því að þegar bátur hans skall á fjörugrjótinu og stöðvaðist í einu vettvangi hafi orðið slys í merkingu lagaákvæðisins. Áfrýjandi vísar því á bug að hann hafi slasast við það að sofna enda hafi slysið ekki falist í svefni hans heldur með skyndilegum utanaðkomandi atburði þegar báturinn skall á fjörugrjóti.

Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að líkamstjón áfrýjanda verði rakið til þess að hann sofnaði og gætti ekki að stefnu bátsins er hann bar af leið með þeim afleiðingum að hann rak upp í fjöru. Stefndi byggir á því að um sé að ræða einn atburð sem hófst þegar áfrýjandi sofnaði við stýrið og lauk þegar hann varð fyrir líkamstjóni við strandið. Hafi atburðurinn hvorki gerst skyndilega né verið utanaðkomandi.

Með 9. gr. laga nr. 74/2002 um breyting á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um málefni aldraðra, lögum um heilbrigðisþjónustu og sóttvarnalögum, var lögfest skilgreining á hugtakinu slys varðandi slysatryggingar almannatrygginga. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 74/2002 kom meðal annars fram að sú skilgreining sem lögð væri til í ákvæðinu væri í samræmi við skilgreiningu sem notuð væri í vátryggingarrétti.

II

Fallist er á með áfrýjanda að líkamstjón hans hafi hlotist af skyndilegum utanaðkomandi atburði í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007 þegar bátur hans, Begga GK-717, skall á 11 hnúta ferð á fjörugrjóti 23. júlí 2007 og stöðvaðist skyndilega. Við það kastaðist áfrýjandi til í stýrishúsi bátsins og hlaut af það líkamstjón sem hann krefur stefnda um bætur fyrir. Ljóst er að báturinn strandaði án vilja áfrýjanda. Í því efni skiptir ekki máli þó að óumdeilt sé að áfrýjandi hafði sofnað í bátnum eftir að hafa sett sjálfstýringuna á.“

 

Lögmaður Sveins var Björn L. Bergsson hrl.

 

Sjá dóm Hæstaréttar í heild 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...