Hvatt til sáttaleiðar - Landssamband smábátaeigenda

Hvatt til sáttaleiðarForseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands ritar skoðunargrein í nýjasta tölublað Fiskifrétta, sem ber yfirskriftina „Drullubræla framundan“.  Í greininni, sem rituð er undir hughrifum af ræðu sjávarútvegsráðherra á þingi LÍÚ, ræðst hann á ráðherrann og finnur störfum hans allt til foráttu.  Ekki ætla ég deila þeirri skoðun með forsetanum.  Ég ætla hins vegar að halda því fram að forsetinn hafi misskilið ræðu ráðherra og vil í því skyni benda honum á að lesa ræðuna af meiri athygli.   

Því ber að fagna, en ekki ráðast á með gífuryrðum, að í umræddri ræðu gagnrýnir ráðherra þá sem finna skýrslu sáttanefndar „margt til foráttu“ og segir „að vel hafi tekist til“.  


Orðrétt úr ræðunni:

    „Ýmsir hafa undanfarið stigið fram og fundið skýrslu hópsins margt til foráttu en það þarf hins vegar ekki að koma á óvart að menn túlki einstaka þætti hennar út frá sínu hagsmunalegu sjónarhorni.  Ég er samt ekki í þeim hópi og segi að vel hafi tekist til miðað við aðstæður.“


Forsetinn getur því dregið gífuryrði og bölbænir í garð ráðherrans til baka og skipað sér í flokk með undirrituðum sem hvetur ráðherrann til að hafa samningaleiðina að leiðarljósi í væntanlegu frumvarpi. 

 

Í greininni getur forsetinn ekki látið hjá líða að ítreka áðurframkomna fordóma sína gagnvart smábátaútgerðinni.  Samkvæmt venju notar hann upphrópunarstíl; að ráðherrann skuli voga sér að hafa „ofurtrú á trillu og smábátavæðingu á einu erfiðasta hafsvæði í veröldinni.“. 

Í þeirri orrahríð sem sjávarútvegurinn stendur nú í þurfa hagsmunaaðilar að hafa hugfast að allar greinar sjávarútvegsins eiga rétt á sér og samstaða um slíkt skilar honum best til framtíðar. 


Örn Pálsson framkvæmdastjóri

Landssambands smábátaeigenda 
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...