Stjórn LS skorar á ráðherra að bæta 20 þús. tonnum við ýsuna - Landssamband smábátaeigenda

Stjórn LS skorar á ráðherra að bæta 20 þús. tonnum við ýsunaStjórn Landssambands smábátaeigenda hefur sent Jóni Bjarnasyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra áskorun um að auka nú þegar leyfilegan heildarafla í ýsu um 20 þús. tonn.

 

Ályktunin sem stjórnin samþykkti er eftirfarandi:

Stjórn Landssambands smábátaeigenda skorar á Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að bæta nú þegar 20 þúsund tonnum við áðurútgefinn heildarafla í ýsu.

Það er skoðun stjórnar LS að við þá ákvörðun muni ýsuafli þeirra sem veiða með botnvörpu ekki aukast.  Eðlileg viðskipti kæmust aftur á með leigukvóta og draga mundi úr þvinguðum viðskiptum.  

Veiðiheimildir mundu leita til þeirra sem nú geta ekki veitt þorsk sökum mikillar ýsugengdar á veiðislóðinni.

Hér er um afar nauðsynlega aðgerð að ræða þar sem við blasir milljarða tap í minnkandi útflutningsverðmætum og stórháskalegt svelti á mikilvæga markaði.  

Tilfinnanlegur skortur er á línuveiddri dagróðraýsu.“

 

Í bréfi stjórnarinnar til ráðherra segir ennfremur að samhljómur sé meðal smábátaeigenda um að víðast hvar á veiðislóð þeirra hafi magn ýsu aukist á milli ár.  Stjórn LS hafi af því verulegar áhyggjur að ekki takist að gera verðmæti með veiðum úr úthlutuðum heildarafla á ýsu á yfirstandandi fiskveiðiári, eins og gerðist á síðasta fiskveiðiári.  Helsta ástæða þess eru ónægar veiðiheimildir krókaaflamarksbáta.  Þar vega tveir þættir mest, annars vegar botnfrosinn leigumarkaður og hins vegar gríðarlegar skerðingar á heildarafla ýsu sl. tvö fiskveiðiár. 
 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...