Stöðvun veiða vegna skorts á ýsu blasir víða við - Landssamband smábátaeigenda

Stöðvun veiða vegna skorts á ýsu blasir víða við


 

Í kjölfar fréttar af erfiðleikum í útgerð báta á Borgarfirði Eystri bárust símtöl víða að þar sem aðilar lýstu svipuðum vandamálum.  Enga ýsu að fá, enginn vill leigja frá sér.

LS athugaði af þessu tilefni stöðuna í veiðum eftir fyrsta fjórðung fiskveiðiársins.  Þar kemur fram að krókaflamarksbátar eiga innan við þriðjung eftir af úthlutuðum veiðiheimildum í ýsu.  Ástandið er því grafalvarlegt og knýjandi að stjórnvöld komi að málinu.  Stefna LS er skýr í þessu máli að ýsa veidd á dagróðrabáta teljist aðeins að hálfu til kvóta.

 

Gríðarlegra óánægju gætir hjá smábátaeigendum með veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í ýsu.  Stofnunin lagði til að veiðiheimildir yrðu minnkaðar niður í 45 þúsund tonn sem er aðeins tæpur helmingur af því sem hún lagði til fyrir tveimur árum.  Sjávarútvegsráðherra ákvað hins vegar að ýsukvóti þessa árs yrði 50 þús. tonn.   Sjómenn sem stunda veiðar á grunnslóð eru sammála um að ýsugengd þar sé nú meiri en á sl. ári.  Því kom þeim mikill niðurskurður á óvart.  Þeir segja ýsuráðgjöfina taka mið af veiðum á togslóð, enda fari togararallið þar fram.  Þar sé vissulega minna af ýsu og sína aflatölur að ýsuveiðar togara hafa gengið illa, þessu er öfugt farið á grunnslóðinni.


Á fyrstu þremur mánuðum fiskveiðiársins var búið að veiða 13.519 tonn af ýsu.  Af því höfðu krókaaflamarksbátar veitt 41,3% af heildarýsuaflanum eða 5.588 tonn.  Ýsuafli togara var hins aðeins þrjú þúsund tonn eða 22,6% af heildarafla ýsu.  Til samanburðar var á þessu tímabili árið 2007 afli togara 10.343 tonn eða rúmur þriðjungur þess sem þá hafði verið veitt en ýsuafli krókaflamarksbáta tæp átta þúsund tonn eða 26,4% heildarýsuafla á fyrsta ársfjórðungi fiskveiðiársins 2007/2008.
 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...