Ólíkar aðferðir við úthlutun makrílkvóta á Íslandi og í Noregi - Landssamband smábátaeigenda

Ólíkar aðferðir við úthlutun makrílkvóta á Íslandi og í Noregi


Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið birti nú nýverið reglugerð um makrílveiðar íslenskra fiskiskipa fyrir árið 2011.

Í reglugerðinni er heildarúthlutun 154.825 tonn, sem er aukning um 21.225 tonn, eða 13,6% frá síðasta ári.  Hins vegar er hlutur strandveiðiflotans nú 2000 tonn en var 3000 tonn í fyrra.  Á sama tíma og leyfilegur heildarafli er aukinn, er þessi sneið kökunnar minnkuð um 33%.  Hlutdeildin í fyrra var 2,25% en er nú 1,29%.


Það má til sanns vegar færa að strandveiðiflotinn hefur veitt sáralítinn hluta þess sem honum er ætlað. Fyrir því eru gildar ástæður.  Til að ná árangri í handfæraveiðum á makríl á grunnslóð þarf að fjárfesta í dýrum búnaði sem er nýr fyrir Íslendingum. Þá tekur tíma að læra nýja veiðiaðferð og hvað þá að ná árangri. Stórskipaflotinn getur að mestu leyti notað þau tæki og tól sem hann hafði þá þegar fyrir hendi til veiða á öðrum uppsjávartegundum.


Það er athyglisvert að sjá hvernig Norðmenn standa að úthlutun makrílkvótans.  Þar á bæ eru 20% heildarkvótans eyrnamerktur strandveiðiflotanum, þar af 10 þúsund tonn til báta minni en 11 metrar.  Bátar allt að 28 metrum falla undir strandveiðiflotann.  Norðmenn ákváðu kvóta fyrir árið upp á 182.000 tonn. Þar af fékk strandveiðiflotinn 36.870 tonn.

 

handfaeri makrill.png


Mest af afla þeirra u.þ.b. 200 báta undir 11 metrum sem stunda makrílveiðar er tekinn með handfærum.  Það þekkist þó að bátar allt niður í 10 metrar stundi nótaveiðar. Handfæraveiðar á makríl hafa þekkst til langs tíma í Noregi, en sú aðferð sem tíðkast þar í dag hefur einungis verið stunduð s.l. 8-10 ár. Það er sú aðferð sem Íslendingar eru að prófa sig áfram með. 


Þá ber ekki síst að geta þess, að norska strandveiðiflotanum er ávalt tryggður 20 þúsund tonna kvóti.  Þannig myndi hann fá allan makrílkvótann, yrði heildaraflinn á honum ákveðinn 20 þúsund tonn.


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...