Ársfundur Gildis-lífeyrissjóðs - enn tugir milljarða farnir - Landssamband smábátaeigenda

Ársfundur Gildis-lífeyrissjóðs - enn tugir milljarða farnirÁrsfundur Gildis-lífeyrissjóðs var haldinn fyrr í dag.  Á fundinum hvatti Örn Pálsson framkvæmdastjóri LS sér hljóðs undir liðnum skýrsla stjórnar.  Meðal þess sem fram kom í máli hans var að:

Að sjóðurinn hefði tapað 23,8 milljörðum á sl. tveimur árum - tuttuguogþrjúþúsundogáttahundruðmilljónir.  Hann glöggvaði tilheyrendur á að upphæðin svaraði til.

·      10% af heildareignum sjóðsins

·      jafngilti útborguðum lífeyri frá Gildi yfir 3 ár

·      greiðslu 200 þúsund króna mánaðarlauna hjá 100 verkakonum í eina öld.

 

Örn sagði að ekki sæi fyrir endann á afleiðingum hrunsins hjá Gildi, þar minnti hann á uppgjör gjaldmiðlaskiptasamninganna.  „Ef allt fer á versta veg þá bætast 19 milljarðar við og samtalan fer í 43 milljarða sem slagar upp í að vera fimmti hluti af eignum Gildis.“

 

„Hefur einhver axlað ábyrgð?  Nei - enginn stjórnarmaður Gildis hefur stigið til hliðar, þrátt fyrir kröfu þar um.  Eina breytingin sem sjá má kom fram í tilkynningu á heimasíðu sjóðsins fyrir ári síðan um að Tryggvi Tryggvason hafi ákveðið að hætta störfum hjá Gildi sem forstöðumaður eignastýringar“, sagði Örn. 

 

Örn kom inn á þá þætti sem varða gjaldeyrisáhættu og vitnaði til ársreikningsins sem segir hana einn stærsta áhættuþáttinn í rekstri sjóðsins, annars vegar geti hún komið fram í sveiflum á eignahlið sjóðsins og hins vegar haft óbein áhrif á skuldbindingahliðina gegnum áhrif gengis á verðbólgu.

„Gjaldeyrishöft hefta ekki aðeins erlendar fjárfestingar sjóðsins heldur einnig möguleika hans til að verja núverandi stöðu hans í erlendum gjaldmiðlum fyrir sveiflum í gjaldmiðlum.“, orðrétt úr skýrslunni.


Hefur Gildi keypt sér gengisvarnir milli hinna erlendu gjaldmiðla?

 

„Spurningin er aðallega tilkomin vegna tveggja þátta.

Annars vegar að þess er getið í skýrslunni að engir afleiðusamningar hafi verið í gildi í árslok 2010.

Og hins vegar þess að erlent eignasafn Gildis er að langmestu í dollurum eða 81%, evran vegur þar 16% og pund 2%.    Miðað við sveiflur í þessum myntum frá áramótum hefur dollarasafnið rýrnað um 1,9 milljarða, evru og pund safn fært hagnað.   Heildartap frá áramótum er einn milljarður ef engar gengisvarnir á erlenda gjaldmiðla hafa verið  gerðar. Við þetta bætist að gengisvísitala hafi hækkað um 5% á sama tíma sem hefði þá átt að gefa okkur hækkun á erlendum eignum um 3,3 milljarða.  Mismunur 4.300 milljónir sem er meira en helmingur af öllum lífeyri sem sjóðurinn greiddi á síðasta ári eða sem nemur 38% af heildariðgjöldum sem greidd voru til sjóðsins 2010“.

 

Örn sagðist telja eignasafnið standa veikt m.t.t. að niðursveifla dollars hafi staðið yfir samfellt í 9 ár eða frá febrúar 2002, auk þess væri nú búið að verðfella dollarann með neikvæðum horfum. 

„Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir stjórnendur sjóðsins að haga gengisvörnum á þann veg að þær aðlagi safnið sem næst gengisvog innflutnings, sem hefur bein áhrif á skuldbindingar Gildis í gegnum verðbólgu.  Í gengisvog innflutnings á árinu 2010 var vægi evrunnar 32,9%, en dollar aðeins 8,1%,“ sagði Örn.

Hann hvatti stjórnendur sjóðsins að standa með öllum ráðum vörð um eignasafnið.  Gjaldeyrishöft koma ekki í veg fyrir afleiðusamninga milli einstakra gjaldmiðla heldur aðeins milli þeirra og krónu.“  Örn vitnaði í þessu sambandi til 9. gr. reglna Seðlabankans um gjaldeyrismál útg. í apríl 2010.

Hann sagði það því ekki rétt sem fram kemur í niðurlagi skýrslu og yfirlýsingu stjórnar og framkvæmdastjóra að vegna gjaldeyrishafta sé sjóðnum nú ómögulegt að verjast gengisáhættu með gerð afleiðusamninga.

 

Í ræðu sinni rifjaði Örn upp það sem fram kom í skýrslu Gildis á síðasta ári um 3.690 milljóna víkjandi lán til Glitnis.  Hann spurði í því sambandi um önnur víkjandi lán til bankanna sem hefðu verið afskrifuð að fullu og nú ekki gert ráð fyrir að neitt fáist upp í þær kröfur.“ 

Hvenær þau voru tekin og upphæðum hvers og eins sem afskrifuð voru?

 

Að lokum fjallaði Örn um fjárfestingu Gildis í vogunarsjóðum.

Tap 2009 10,7%  - tap 2010 11,9%, samtals 23,9% á tveimur árum.  Ætla hefði mátt að hér hefðu átt að vera plús tölur.  Sjóðirnir hefðu átt að gefa ríflega ávöxtun. 

Hvað fór úrskeiðis og hverjar væru horfurnar?   Hvernig skýrir stjórnin það að enn er verið með vogunarsjóði inni í fjárestingastefnu sjóðsins?  Hverjar eru horfurnar á að hægt verði að losa fjármuni úr vogunarsjóðum?

 

Örn sagðist áður hafa gagnrýnt fjárfestingar Gildis í vogurnarsjóðum hún væri hér með ítrekuð.  Það getur varla samrýmst stefnu sjóðsins að fjárfesta í umhverfi sem byggir á gríðarlegum sveiflum þar sem markmið sjóðsins er að tryggja sem hæsta ávöxtun að teknu tilliti til áhættu.   Ég áætla samkvæmt ársreikningum að samanlagt tap Gildis vegna fjárfestinga í vogunarsjóðum síðustu tveggja ára í neikvæðri ávöxtun upp á 23,9% sé 1.500 milljónir“, sagði Örn.

 

Á morgun verður frekari umfjöllun um ársfundinn. 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...