Kemur frumvarp eða ekki? - ekki sér fyrir endann á biðinni löngu - Landssamband smábátaeigenda

Kemur frumvarp eða ekki? - ekki sér fyrir endann á biðinni lönguÍ  nýjustu Fiskifréttum birtist eftirfarandi grein eftir Örn Pálsson: 


„Ekki sér fyrir endann á biðinni löngu

Kemur frumvarp eða ekki?

 Óvissan fiskveiðistjórnarfrumvarpið veldur margvíslegum óþægindum, segir Örn Pálsson.

 

Frá því að sáttanefnd Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skilaði af sér í byrjun þessa fiskveiðiárs hefur sjávarútvegurinn beðið eftir frumvarpi frá ráðherra. Aðilar bjuggust flestir við að ekki tæki langan tíma að smíða frumvarpið þar sem búið væri að marka leiðina með niðurstöðu sáttanefndarinnar.

Til dæmis var þokkaleg sátt í nefndinni um að fara samningaleiðina sem fæli í sér viðurkenningu á eignarhaldi þjóðarinnar á sjávarauðlindinni. Sérhverri útgerð yrði þannig boðinn samningur til langs tíma um veiðirétt á grundvelli þeirra hlutdeildar sem hún hefði, gegn því að afsala sér kröfu og öllu tilkalli til eignarréttar á þeirri aflahlutdeild sem hún hefði áunnið sér gegnum árin.  Þannig væri verið að uppfylla ákvæði í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um „að fiskistofnarnir umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar.“  Langvinnum deilum um eignarhaldið mundi þannig ljúka með „sátt meðal þjóðarinnar um eignarhald“, eins og segir í stefnuyfirlýsingunni.

 

Ekkert bólar á frumvarpinu

En nú rúmum sjö mánuðum eftir að sáttanefndin skilaði af sér bólar ekkert á frumvarpinu.  Engin frumdrög né drög hafa verið sýnd hagsmunaaðilum til skoðunar.

Sú bið og óvissa sem hér er orðin hefur leitt af sér margvísleg óþægindi fyrir smábátaeigendur sem og aðra útgerðaraðila. Eins og komið hefur fram eru margar útgerðir mjög skuldsettar. Lántökur voru í flestum tilvikum tilkomnar vegna kaupa á aflaheimildum til að tryggja sér aukinn veiðirétt. Lánastofnanir og lagasetningar, „beina brautin“, knýja á um að lánin séu sett í ákveðið afborgunarferli. Beðið er um upplýsingar um stöðu fyrirtækjanna og boðið upp á endurnýjaða lánasamninga sem taki mið af henni. Undirritun slíks er í raun ekki framkvæmanleg vegna óvissu um framtíð veiðiréttar hvers og eins.  Þar við bætast alls kyns sögur um hinar og þessar breytingar sem fyrirhugað sé að gera á lögum um stjórn fiskveiða. Vegna þessa er óraunhæft að lánastofnannir fari fram á skuldbreytingar, þær þurfa að sýna jafnt stórum sem smáum útgerðum skilning vegna þessa og er áframhaldandi lánafrysting því óhjákvæmileg. 

Samleið eiga lánastofnanir hins vegar með útgerðaraðilum um knýja á um að ríkisstjórnin sýni á spilin sem vista fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Það verður að fara að gerast.

 

Kvótabrasksstimpillinn

Að öðru þessu tengt. 

Það urðu Landssambandi smábátaeigenda (LS) mikil vonbrigði þegar LÍÚ kúventi í afstöðu sinni til framsals veiðiheimilda. Frá upphafi hafa útgerðarmenn haldið því fram með réttu að ein meginforsendan fyrir hagkvæmni kvótakerfisins sé frjálst framsal veiðiheimilda innan ársins. Eftir langa fjarveru frá sáttanefndarstarfinu mættu þeir til fundar og snérust á sveif með Sjómannasambandinu í kröfu þess um að þrengja reglur um framsal. Meðal röksemda fyrir afstöðu sinni er það að þvo af sér kvótabrasksstimpilinn.  Þannig sé komið til móts við sjónarmið almennings sem hefur gagnrýnt að útgerðarmenn geti haft tekjur af veiðiheimildum án þess að fara á sjó. 

 

Tekjur af kvótaviðskiptum

LS hefur ávallt verið þeirra skoðunar að hver sá sem fái úthlutaðar veiðiheimildum eigi að umbreyta þeim í tekjur með veiðum. Telji hann sig hins vegar þurfa á meiri veiðiheimildum að halda og geti fengið þær til afnota frá öðrum aðila sýni það sig að hann sé tilbúinn greiða fyrir afnotin en hafi samt hagnað út úr viðskiptunum. 

Almenningi gremst að andvirði viðskiptanna fari oft á tíðum ekki í að efla eigið fyrirtæki heldur til að fjármagna eigin neyslu. Lái honum það hver sem vill.   Meinbugurinn er því ekki framsalið sjálft heldur nettófjárhæðin sem viðkomandi spilar úr til annarra nota en fyrir sitt fyrirtæki.

 

Skattlagning kvótaviðskipta

Þar sem stjórn fiskveiða byggist á kvótakerfi sem er háð því að engar skorður séu settar á framsal veiðiheimilda innan ársins finnst mér eðlilegt að sérstakur skattaflokkur verði virkjaður þannig að hærra hlutfall af nettótekjum vegna viðskiptanna renni í ríkissjóð. 

Hér með er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvattur til að afnema skorður við framsali innan ársins. Með því yrði hagkvæmni stjórnkerfis fiskveiða meiri, aðilar gætu skipt á veiðiheimildum án takmarkana, framboð mundi aukast og nýir aðilar ættu greiðari aðgang að greininni. Síðast en ekki síst mundi ríkissjóður fá tekjur af breytingunni.“

 

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. 

hald“og nýtingu auðlinda sjávardið mundi þannig ljhverfis landið snnt nðyju.“.“

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...