Ályktun stjórnarfundar LS 18. maí 2011 - Landssamband smábátaeigenda

Ályktun stjórnarfundar LS 18. maí 2011Í gær, 18. maí fundaði stjórn Landssambands smábátaeigenda.  Eins og gefur að skilja snerist dagskrá fundarins um frumvörp þau sem fram eru komin um fiskveiðistjórnunarkerfið.
Að loknum fundi var eftirfarandi ályktun samþykkt:

Landssamband smábátaeigenda (LS) tók fullan þátt í starfi Sáttanefndarinnar um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunar.  Félagið var reiðubúið að leggja mikið á sig til að friður gæti skapast um þetta mikilvæga mál.

Það eru félaginu því mikil vonbrigði að sjá hvert stefnir samkvæmt „stóra frumvarpi“ sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Verði það frumvarp að lögum er gengið þvert gegn því sem stendur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar: 

„...afar mikilvægt að skapa greininni bestu rekstrarskilyrði sem 

völ er á og treysta þannig rekstrargrundvöllinn til langs tíma...“.

Frumvarpið er samið án minnstu aðkomu þeirra sem starfa í sjávarútvegi.  Sú vinnutilhögun er harla ólíkleg til að skapa sátt við þá sem þar eiga hlut að máli. Þó finna megi einstaka samhljóm við niðurstöður Sáttanefndarinnar er langsótt að halda því fram að frumvarpið byggist á þeim niðurstöðum. 

Að óbreyttu frumvarpi blasir við að fjölmargar smábátaútgerðir munu eiga enn erfiðar með að glíma við rekstrarumhverfi sem um langa tíð mun einkennast af hruni efnahagskerfisins síðla árs 2008.  Sú óvissa sem aðilar hafa búið við mun magnast, m.a. vegna þess að með einu pennastriki er dregið stórlega úr möguleikum smábátaflotans til að afla þess hágæða hráefnis sem einhverjir dýrustu ferskfiskflakamarkaðir heims hafa byggst upp af.  

Stjórn LS mótmælir því harðlega hversu stuttir samningar skulu gerðir við útgerðaraðila.  Sú tímalengd endurspeglar ekki eðlilegan afskriftartíma fiskibáta og er í hróplegu ósamræmi við lengd þeirra samninga sem gerðir eru vegna nýtingar annarra náttúruauðlinda, sem og yfirlýsingar um að samræma skuli lög um nýtingu slíkra auðlinda.  Þetta ákvæði hlýtur að verða endurskoðað í meðförum Alþingis.

Það er fagnaðarefni að stjórnvöld telji að svigrúm sé til að auka veiðiheimildir í nokkrum mikilvægum tegundum.  Í því sambandi hvetur LS stjórnvöld til að huga að þeim sem mestar skerðingar hafa þurft að þola í veiðiheimildum undanfarin ár. 

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að aukist veiðiheimildir frá því sem nú er í þorski, ýsu, ufsa og steinbít skuli sú aukning ekki ganga að fullu til þessara aðila.  Enn skal því vegið í sama knérunn.  

Þessi grundvallarbreyting hefur þær afleiðingar að áhugi á því að fjárfesta í sjávarútvegi mun snarminnka.  Þeir sem keypt hafa veiðiheimildir á undanförnum árum, í trausti þess að sá tími rynni upp að þær ykjust með sama hætti og þær hafa minnkað, upplifa boðaðar breytingar sem svo að þeir hafi verið blekktir til fjárfestinga sem koma fyrir lítið og ekkert.  Til viðbótar þessu eru boðuð lög með sólarlagsákvæði og ekki stafkrók að finna um hvað við taki.             

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: 

„íslenskur sjávarútvegur mun gegna lykilhlutverki 

við þá endurreisn atvinnulífsins sem framundan er".

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði starfshóp sem skal meta hin hagrænu áhrif af fyrirhuguðum lagabreytingum.  

Stjórn LS treystir því að starfshópurinn skoði sérstaklega hver áhrifin eru á smábátaútgerðina.

Mikilvægi sjávarútvegsins fyrir þjóðarbúið er gríðarlegt.  Þrátt fyrir þau áföll sem dunið hafa yfir, bæði með niðurskurði veiðiheimilda og efnahagshruni, er smábátaútgerðin enn öflug og gegnir lykilhlutverki í lífi og starfi fjölmargra sjávarbyggða, hringinn í kring um landið.

Stjórn Landssambands smábátaeigenda skorar á stjórnvöld að endurskoða framkomið frumvarp og gera á því breytingar sem miða að því að eyða óvissu en auka hana ekki, treysti möguleika til öflunar hágæða hráefnis fyrir mikilvæga markaði en loki ekki fyrir þá, og hafi eðlileg samskipti við þá sem starfa í sjávarútvegi en haldi þeim ekki úti í kuldanum.

Stjórn Landssambands smábátaeigenda


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...