Aðalfundur 2011, setningarræða formanns - Landssamband smábátaeigenda

Aðalfundur 2011, setningarræða formanns


Í gærmorgun hófst 27. aðalfundur Landssambands smábátaeigenda.  Yfir eitt hundrað fulltrúar og gestir voru við setningu fundarins.  Arthur Bogason, formaður flutti eftirfarandi ræðu við setninguna:

„Ágætu fundarmenn, hæstvirtur sjávarútvegsráðherra og aðrir góðir gestir.

Óaðskiljanlegir þættir þess að yrkja hafið við Íslandsstrendur er að glíma við úfinn sjó, myrkur, hamsleysi vetrarveðra og svo ekki sé minnst á endalausa duttlunga náttúrunnar í hafinu.

Engu að síður heillar hafið og dregur að. Oft gefur erfiðið góðar tekjur og það er yndi að sjá á milli stríða fegurðina í kyrrum haffleti hvert sem augað eygir.

Eitt af því sem heillar hvað mest við hafið, þá miklu skepnu, er dulúð þess; Flest af því sem það geymir er hulið sjónum okkar og þrátt fyrir alla tækni nútímans er færra vitað um hið gríðarlega flókna kerfi lífs, strauma og samspil hafrýmisins við þurrlendi og himinhvolf en um efnasamsetningu halastjarna sem geysast fram hjá jörðinni á ofsahraða á áratugafresti.

Talið er að einungis fiskitegundirnar telji um 32 þúsund í höfum og ferskvatni og í heildina er talið að hátt í tvær milljónir lífvera af öllum gerðum búi í heimshöfunum. Það verður að teljast eðlilegt að langt sé í land með fullkominn skilning á öllum þessum ósköpum.

Á síðasta ári gaf Michael Brooks, doktor í skammtaeðlisfræði, út ágæta bók sem heitir „13 Things that don’t Make Sense” eða „13 atriði sem ganga ekki upp”.  Í henni rekur hann á mannamáli hvernig grundvöllur vísindanna sem viðurkennd hafa verið um talsverðan tíma, skekst nú og hristist.  Þannig greinir hann frá því, að hornsteinar vísindanna, bæði sjálf afstæðiskenningin og lögmál Newtons standast að öllum líkindum ekki. Sé það rétt er grundvöllur nútímavísinda í raun hruninn og vísindabylting framundan.

Hví er ég að rekja þetta? Jú þetta kemur okkur svo sannarlega við. Vísindamenn sitja semsé uppi með þetta sem ég hef hér rakið. Svona til að bæta gráu ofan á svart, þá geta vísindamenn aðeins gert grein fyrir 4% af því efni sem til er í alheiminum.

En við Íslendingar erum heppnir. Hér háttar málum nefnilega þannig til, að hér er stunduð vísindagrein sem er hafin yfir allan vafa og þarfnast engra frekari athugana við. Þetta er vitaskuld fiskifræðin. Árum og áratugum saman haggast þar ekkert. Reynsla þeirra sem starfa á vettvangi skiptir þar engu.

Þetta er ekki lítið lán, sérstaklega þegar það er haft í huga að stór hluti gjaldeyristekna þjóðarbúsins kemur úr hafinu og ákvarðast að stórum hluta af „vísindalegum” tillögum.

Til fjölda ára hefur LS gagnrýnt harðlega þessa vísindaráðgjöf og ekki síður aðferðafræðina að baki ráðgjöfinni. Við erum ekki einir. Þeim fjölgar sífellt röddunum sem tala á sama veg.

En höfum við haft einhvern árangur?

Nei. Og ef eitthvað er hefur þokast afturábak. Í flóruna bættist svokölluð aflaregla sem er eins fjarri því að geta talist líffræðileg fiskveiðistjórnun og hugsast getur. Með slíkri aðferðafræði er líka endanlega fjarlægður sá möguleiki að taka tillit til annarra sjónarmiða - þ.e.a.s. þeirra sem mestum tíma verja á hafinu.

Illu heilli og ofaní kaupið hafa stjórnvöld nánast að fullu og öllu látið undan þessu. Reikniaðferðunum, aðferðafræðinni við stofnmælingarnar og aflareglunni í þorski. Og fram skal sækja: boðað hefur verið að aflareglu skuli setja á aðrar tegundir og enginn vafi er í mínum huga að það mun ganga eftir.

Í bókinni sem ég vitnaði hér til rekur höfundurinn annað, ekki síður athyglisvert og svosem löngu vitað: þeir sem valda vísindabyltingum eiga alltaf við sama vandan að stríða: Hann er sá í sem stystu máli, að ríkjandi kenningar verða að kerfum sem vísindamenn gefa ekki eftir fyrr en í fulla hnefana. Þeir sem valda byltingunum eru afgreiddir með hefðbundnum hætti sem við könnumst ágætlega við.

Það er sláandi að Michael Brooks er hvergi að fjalla um fiskveiðar, fiskveiðistjórnun og hvað þá Ísland. Það mætti hins vegar halda, að hann sé þaulkunnugur framvindu þessara mála hérlendis og sé að skrifa um þau undir dulnefnum.

Hvenær rennur sá dagur, að upp rís öflugur stjórnmálamaður á Íslandi og býður þessu byrginn? Hvenær á þessari endalausu undanlátssemi að linna þegar varla finnst sá fiskimaður á Íslandi sem tekur þar undir?

Við þurfum að leggja okkar af mörkum. Við eigum að mótmæla fullum hálsi aflareglubrölti Hafrannsóknastofnunarinnar.

Við eigum að halda áfram að mótmæla fullum hálsi ráðgjöf stofnunarinnar, eins og við höfum gert. Hvernig getur ráðgjöf verið með einhverju viti, þegar hún er látlaust í algeru ósamræmi við reynslu veiðimannanna dögum, vikum og árum saman?

Bara þetta tvennt hefur þær afleiðingar að smásmuguhátturinn verður alger og veldur því meðal annars að krafa Landssambandsins um að sá afli sem fer í strandveiðarnar séu hafðar utan sviga og reiknaðar eftirá, en ekki dregnar af mönnum fyrirfram, á mjög erfitt uppdráttar.

Að því leytinu til er þetta heppilegt tæki þeirra sem vilja koma af stað misklíð í okkar röðum. Etja mönnum saman. Og illu heilli þá hefur þetta tekist að einhverju leyti.

Þjóðfélagið okkar logar enn í illdeilum, tortryggni, ásökunum og þeirri leiðu áráttu að vera í manninum en ekki boltanum. Félagið okkar þarf síst af öllu á þessu að halda.

Einu stundirnar í sögu þessa félags þegar á okkur hefur hallað er þegar glufur hafa myndast í þá samstöðu sem við annars höfum borið gæfu til að sýna.

Það hefur verið á tímum óvissu sem slíkt hefur komið fyrir og því miður hefur óvissan sjaldan verið meiri. Þannig að um algerlega rökrétt samhengi er að ræða. Hið svokallaða stóra frumvarp sem er, ef það verður samþykkt af Alþingi, ný heildarlög um fiskveiðistjórnun.

Margir ykkar hér inni muna eflaust eftir því að áður en aðalfundi Landssambandsins lauk fyrir tveimur árum, yfirgaf ég fundinn áður en honum var lokið. Ástæðan var sú að kallaður hafði verið saman fundur í „sáttanefndinni” og fundarmönnum þótti það meira en sjálfsagt að ég færi til þess fundar. Hvers vegna? Jú, það var vegna þess að LS vildi leggja sitt af mörkum til að sátt gæti náðst um sjávarútveginn. Við vorum ekki í sýndarleik - okkur var fúlasta alvara. Og okkur er það ennþá.

Stóra frumvarpið mun ekki leiða til sátta, hvorki innan eða utan sjávarútvegsins. Í því eru breytingar sem munu koma fjölmörgum smábátaútgerðum í mikinn vanda og jafnvel gera útaf við einhverjar þeirra.   

Ég trúi því ekki að óreyndu að slíkt verði látið fara í gegnum löggjafarsamkomu þjóðarinnar.

Stjórn LS ályktaði um þetta frumvarp á fundi sínum í júlí sl. Þar var um að ræða að ég held stystu ályktun sem stjórnin hefur nokkru sinni látið frá sér fara á þeim 112 fundum sem hún hefur haldið frá stofnun. Stjórnin hafnaði einfaldlega frumvarpinu, en bauðst sem fyrr til að vinna að sátt í samstarfi við stjórnvöld. Og fyrst hæstvirtur sjávarútvegsráðherra er hér staddur beini ég orðum mínum til hans: „þáðu þetta boð“. Ég fullyrði að það er ósk allra þeirra sér hér sitja. Að óvissunni linni sem hangið hefur yfir og mun að óbreyttu gera áfram.

Ég hef hér tæpt á tveimur þeim atriðum sem ég tel gnæfa yfir hvað varðar mikilvægi. Fyrir þessum fundi liggja vitaskuld tillögur um fjölmörg önnur mál en ég treysti því að um þessi atriði verði ályktað einum rómi.

Ágætu fundarmenn: Ef við ætlumst til að á okkur sé hlustað og tekið mark á því sem við segjum, er lykilatriði að við hlustum á hvorn annan og virðum ólíkar skoðanir þess sem kann að sitja í næsta sæti.  Í fjölmennu félagi eins og LS sannarlega er verða að rúmast hin ýmsu sjónarmið.

Við sjáum allt í kring afleiðingar sundrungar. Látum það vera víti til varnaðar. Tökum höndum saman og berjumst af einlægni fyrir öflugri smábátaútgerð.

Ég segi 27. aðalfund LS settan“.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...