Grásleppuvertíðin 2011 á Nýfundnalandi brást í fimmta skipti í röð - Landssamband smábátaeigenda

Grásleppuvertíðin 2011 á Nýfundnalandi brást í fimmta skipti í röðFyrr í dag hafði Bill Broadrick, formaður strandveiðideildar FFAW (Fish and Food Allied Workers) á Nýfundnalandi samband við skrifstofu LS. FFAW eru stærstu samtök fiskimanna í Norður-Ameríku og þó víðar væri leitað.  Sjá nánar.  LS hefur til fjölda ára átt mjög góð og vinsamleg samskipti við forystu FFAW. 

Eitt og annað barst í tal við Bill Broadrick um gengi veiðanna hér og við austurströnd Kanada. Þar á meðal síðasta grásleppuvertíð. Eins og kunnugt er veiddist í um 11 þúsund tunnur af hrognum hérlendis, en það er ekki hægt að segja það sama frá Nýfundnalandi. Þar endaði vertíðin í 610 tunnum, sem ein lægsta tala frá því Kanadamenn hófu atvinnuveiðar á grásleppu uppúr 1980.

Hvorki vísindamenn né veiðimenn hafa sennilega skýringu á þessum gífurlegu breytingum frá því sem var fyrir örfáum árum. Þá var gengið út frá því sem vísu að Kanada myndi skila mestum grásleppuafla á land af öllum þjóðum. 

Vertíðin 2011 var sú fimmta í röð sem fer forgörðum hjá þeim. En þótt veiðimenn á Íslandi, Grænlandi og Noregi geti kætst um stund yfir þessum aðstæðum, er sá vermir skammgóður.    

Fyrr eða síðar munu umhverfissamtök ráðast á málið með kjafti og klóm og þar mun rétt og rangt engu skipta. Góð samvinna fiskimannasamtakanna í Atlantshafinu er lykilforsenda þess að öfgafull umhverfissamtök ráði ekki umræðunni og þar með ferðinni. 
Staðreyndin er sú að stórir kaupendur og seljendur í Evrópu og víðar láta það hafa úrslita áhrif á sínar ákvarðanir hver er mest sannfærandi í sínum málflutningi, burtséð frá því hvað sé rétt og rangt. 

Ákvarðanir þessara aðila eru og iðulega teknar á tilfinningalegum forsendum með mið af því hvernig þeir telja að almenningur bregðist við. 

Myndin sýnir duglegan Labrador ná sér í grásleppu við austurströnd Nýfundnalands.  

dog & lumpfish.png

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...