Að geta þess sem vel er gert - Landssamband smábátaeigenda

Að geta þess sem vel er gert


Í dag, fimmtudaginn 10. nóvember birtist í Fiskifréttum grein eftir formann LS, Arthur Bogason.  Greinin ber fyrirsögnina „Að geta þess sem vel er gert“ og fjallar um árangur í slysavörnum til sjós síðustu áratugi.

„Frá því ég fékk vit til að fylgjast með því sem ég hef alla tíð haft mestan áhuga á, fiskveiðum og sjómennsku, hefur setið í mér geigur vegna þeirrar staðreyndar að á hafinu verða öll þessu hræðilegu slys og mannskaðar. Hafið er líkast villidýri. Það bregður yfir sig silkikenndri áferð kattardýrsins og malar við fjörusteininn í blíðunni. Svo vaknar það, skýtur upp kryppum og malar ekki lengur heldur mélar grjót og björg og alltof oft skip og menn sem sleppa ekki úr þessum óseðjandi rándýrskjafti.

Gríðarleg blóðtaka
Mér eru minnisstæð fyrstu árin eftir að Landssamband smábátaeigenda var stofnað 1985. Skelfilegur fjöldi banaslysa á hverju einasta ári. Samt var það gríðarleg fækkun slysa frá því nokkrum árum áður. Þegar mikið hefur legið við til að krydda ræðumennsku um fórnir þjóðarinnar í greipar Ægis eru gjarnan rifjuð upp verstu dæmin frá árabátaöldinni. Það er sjaldnar vitnað til þess að t.d. á árunum 1971-1974 fórust 185 íslenskir sjómenn við störf. Þar af  65 árið 1973. Þetta eru ofboðslegar tölur. Helst er hægt að líka þessu við mannfall í styrjöldum. Sem hlutfall af mannfjölda þjóðar er þessi blóðtaka þrisvar sinnum meiri en sú sem Bandaríkjamenn urðu fyrir á vígvellinum í Víetnam og sambærileg því hlutfalli bandarísku þjóðarinnar sem féll í fyrri heimstyrjöldinni. Á árunum 1971-74 var mun algengara en nú að karlmaðurinn á heimilinu væri fyrirvinnan. Það er varlega áætlað að þetta mannfall hafi verið ígildi þess að um 800 manna samfélag missi fyrirvinnurnar. Það er staður á borð við Grundarfjörð, svo dæmi sé tekið.

Algjör umskipti
Eftir þessa dapurlegu upptalningu staðreynda er þess virði að skoða þróun þessara mála frá t.d. 1971.  Banaslys eru alltaf of mörg, um það deilir enginn, en sé tímabilinu frá 1971-2010 skipt í tvennt, samkvæmt tölum frá Rannsóknarnefnd sjóslysa, er augljóst að alger bylting hefur átt sér stað. Á fyrri hlutanum, 1971-1990, eru banaslys að jafnaði rúmlega 25 á ári, en liðlega 4 að meðaltali 1991-2010. Séu síðustu 5 árin skoðuð er meðaltalið komið niður í rúmlega 2 á ári.

Þar sem allt leiðinlegasta fólk landsins hefur hertekið þjóðfélagsumræðuna um sjávarútveginn með lágkúru og lygum er gott að geta litið til einhvers sem vonlaust er að vefengja og ekki hægt annað en að gleðjast yfir. Á þessari þróun er vitaskuld engin ein og stök skýring. Betri skip og bátar, betri tæki, öryggisbúnaður og menntun á sviði öryggismála, bættar veðurspár og svo mætti lengi telja. Þeir sem stuðlað hafa að þessari þróun eiga miklar þakkir skyldar.

Hættulegasta starf í heimi
Sem betur fer er það svo hérlendis að mannslífið er ekki einskis virði. En það er ekki alls staðar svo. Sjómennska er hættulegasta starf í heimi. Þannig eru banaslys við fiskveiðar 25-30 sinnum tíðari en í nokkurri annarri atvinnugrein í Bandaríkjunum, meira en 20 sinnum tíðari á Ítalíu og hátt í það sama í Ástralíu. Alþjóðastofnanir á borð við FAO og Alþjóðaverkamannasambandið hafa reynt að safna upplýsingum á þessu sviði. Það hefur gengið brösuglega en út frá því sem safnast hefur er áætlað að a.m.k. 24 þúsund manns farist árlega við fiskveiðar í heiminum.

Sú tala er af flestum álitin mjög varfærin og sannleikurinn mun skuggalegri. Þetta gera um 67 banaslys hvern einasta dag árið um kring. Skelfilega lélegar vinnuaðstæður, tækjaleysi, réttleysi varðandi vinnutíma og ótal margt fleira skýrir þessa ótrúlegu tölu.  Þar er og hluti skýringar fullkomið virðingarleysi fyrir mannslífinu.

Hneppt í þrældóm
Svo ótrúlega sem það kann að hljóma þá er það t.d. staðreynd að um 3 milljónir manna eru árlega hnepptar í þrældóm í fiskveiðum, fiskvinnslu og fiskeldi í heiminum. Fjöldi þessa fólks er hreinlega myrtur, standi það sig ekki nákvæmlega eins og til er ætlast - eða veikist lítillega.  Til sjós er líkunum kastað fyrir borð og í fæstum tilfellum verða nokkur eftirmál.

Nú er það kannski eins og að nefna snöru í hengds manns húsi að tala um „útrásarverkefni“.  En er það ekki vel íhugunar virði að hinn frábæri árangur sem náðst hefur hérlendis verði gerður að dýrmætri útflutningsvöru?“

ab1.jpg

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...