Áróður og blekkingar - Landssamband smábátaeigenda

Áróður og blekkingar


Í jólablaði Fiskifrétta birtist grein eftir formann LS, Arthur Bogason, undir titlinum „Áróður og blekkingar".  Tilefni skrifanna var heimildarmynd sem sýnd var á RÚV nú nýverið og fjallaði um matvælaframleiðslu í Bandaríkjunum. Greinin er hér í heild sinni:

Hún var hrollvekjandi heimildarmyndin sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu fyrir stuttu og fjallaði um stóru matvælaframleiðslufyrirtækin í Bandaríkjunum. Hún var ekki hrollvekjandi fyrir þær sakir að vera uppfull af ómerkilegum áróðri og vísvitandi blekkingum. Hún var það vegna þess að hún var að uppistöðu sönn.

Ósönn ímynd

Sú ímynd sem stærstu matvælaframleiðslufyrirtæki heims draga upp af sér er einfaldlega röng.  Það kannast hver við það sem farið hefur í matvælaverslanir, hvort heldur hérlendis eða t.d. í Bandaríkjunum, að hillurnar svigna undan vörum sem skarta fallegum myndum og teikningum af bændabýlum og búgörðum þar sem kýr og hænsni ráfa um á grænum grundum í hamingju sólríkra daga. Þessi ímynd gefur neytendum þægilega tilfinningu um heilbrigt samband vörunnar við náttúruna annars vegar og þá sjálfa sig hins vegar. Hún þjónar sannarlega ekki þeim tilgangi að draga upp sannleikann um „búreksturinn". Væri það gert myndi tæpast nokkur maður snerta viðkomandi vörur með glóandi töngum. Virðingarleysið fyrir náttúrunni, hvort heldur það eru dýr, gróður, vatn eða starfsfólk: allt er fótum troðið í nafni hins heilaga Mammons. Ætli hafi ekkert staðið í þeim sem hafa gert hann að leiðtoga lífs síns?

Buddan er áttavitinn
Í myndinni var að auki viðtal við bandarískan bónda sem hefur enn sem komið er þorað að standa í eigin lappir og framleiðir matvörur sem standa undir þeim umbúðarmyndum sem getið er um. Hann benti með réttu á þann kostnað sem stórfyrirtækin reikna aldrei inn: Það eru spjöllin sem unnin eru á náttúrunni og heilsufari fólks.

Því miður er staðreyndin sú að neytendur, í Bandaríkjunum sem á Íslandi, láta sér þessi mál yfirleitt í léttu rúmi liggja. Buddan er áttavitinn í innkaupunum. Þeirri fullyrðingu er oft haldið á lofti að „neytendasamtök annars staðar en á Íslandi" láti nú aldeilis finna fyrir sér. Ég held að munurinn sé sáralítill ef nokkur. Samtök neytenda geta aldrei orðið sterkari en meðvitund félagsmannanna.

Sannleikurinn er sá að í landbúnaði eru gríðarleg átök milli raunverulegra bænda og iðnaðarfyrirtækja.

Fiskveiðar og fiskrækt
Í fiskveiðum og fiskrækt er þessu svipað farið. Annars vegar eru það smábátaflotar heimsins og hins vegar iðnaðarveiðarnar sem takast á. Því er oft slegið upp, sérstaklega hérlendis, að það sé leitt að átök milli þessara aðila skuli enn eiga sér stað og vitaskuld ættu þessi útgerðarform að taka höndum saman - og svo framvegis. Staðreyndin er auðvitað sú að þetta er ekkert að ástæðulausu. Þessi tvö útgerðarform eru í mörgu gerólík og því fjarri lagi að þau eigi samleið á öllum sviðum.

Formúlan sú sama
Stórfyrirtækin í sjávarútvegi hafa fyrir löngu áttað sig á því að á þau muni halla, þegar umræðan um umhverfismál verður alls ráðandi um fiskveiðarnar.

Þess vegna hafa fjölmörg þeirra leitað skjóls á bak við umhverfismerkið MSC og ætti ekki frekar að þurfa að kynna það flestum lesendum Fiskifrétta. Formúlan er alveg sú sama og í landbúnaðinum og sömu brögðum er beitt:  Á fjölmörgum umbúðum utan um sjávarafurðir má sjá myndir og teikningar af litlum bátum og gömlum fiskimönnum, „hetjum hafsins" og allur sá pakki.

Ég velti því oft fyrir mér, hvort þeir sem reka þessi stóru og öflugu fyrirtæki, hvort heldur er í landbúnaði eða sjávarútvegi, trúi því sjálfir að framleiðsluferlarnir sem þessi fyrirtæki byggja á, fái staðist til lengdar. Ég leyfi mér að efast um það. Mér er nær að halda því fram að ástæða þess að svo algengt er að þau nota myndir af smábátum sé sú, að innst inni vita þau að í framtíðinni munu fiskveiðarnar að langstærstum hluta verða stundaðar af slíkum flotum.

Ég óska lesendum Fiskifrétta gleðilegra jóla.
Höfundur er formaður Landssambands smábátaeigenda

Screen Shot 2011-12-20 at 9.39.10 AM.png

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...