Gróa á Leiti, hefur það eins og svín í hveiti - Landssamband smábátaeigenda

Gróa á Leiti, hefur það eins og svín í hveiti


Það er löngu þekkt fyrirbæri að vikurnar fyrir grásleppuvertíð fara af stað hinar undarlegustu sögur um alls kyns fyrirhugaðar breytingar á lögum og reglum sem að sjálfsögðu eru haft eftir skotheldum heimildum.  Nú hefur aðdragandi strandveiðanna bæst við í þessu sambandi.  

Árið 2012 ætlar síður en svo að vera undantekning.  Á stuttum tíma hafa borist til skrifstofu LS a.m.k. þrjár slíkar sögur, sem hæglega geta verið talsvert atvinnuskapandi fyrir stólsetupússara í Reykjavík sem fá runu af fyrirspurnum, ásamt því að halda hita á mönnum í spjallinu meðan beðið er eftir því að geta lagt fyrir þá gráu.

Fyrsta sagan var á þá leið að veiðidagarnir á komandi grásleppuvertíð yrðu 37, en ekki 50 eins og á síðasta ári.  

Önnur sagan var um kostnaðinn fyrir hvern þann smábát sem hyggðist merkja bát sinn með alþjóðlega umhverfismerkinu sem LS hefur m.a. unnið að og er u.þ.b. að verða hleypt af stokkunum.  Hann ætti semsé að vera 1000 dollarar á bát.

Þriðja sagan var svo á þann veg að eignarhaldsákvæðið á bátum í strandveiðunum skyldi vera a.m.k. 50%.

Samanlagt hefur þessi framleiðsla Gróu á Leiti náð að drepa þó nokkurn tíma fyrir skrifstofublækur Höfuðborgarsvæðisins.  Vart þarf að taka það fram hér í lokin að allt er þetta dellumakerí af sverustu gerð.

Hvað síðustu söguna varðar þarf ekki annað en að lesa reglugerðina um strandveiðarnar, en þar er engin prósenta nefnd hvað varðar eignarhald á þeim bátum sem fara í þær veiðar.  Þar er einungis talað um að viðkomandi þurfi að vera eigandi, sé um lögaðila (félag) að ræða. Það getur verið allt frá broti úr prósenti og upp úr.  

1 Athugasemdir

Takk fyrir þetta!

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...