Framfarafélag Öxarfjarðar skorar á stjórnvöld - Landssamband smábátaeigenda

Framfarafélag Öxarfjarðar skorar á stjórnvöldÞað eru fleiri en Landssamband smábátaeigenda (LS) sem skora á stjórnvöld að gera handfæraveiðum hærra undir höfði en öðrum veiðiskap.  Allir sem stundað hafa skak við strendur landsins vita mætavel að náttúran, með sínum veðrum og vindum, myrkri og straumum gerir vel í því að halda þessum veiðum langt innan þeirra marka að skaði geti af þeim hlotist. 

Af einhverjum ástæðum telja stjórnvöld hinsvegar að náttúran sé ekki að standa sig í þessum efnum og því afar brýnt að bæta hressilega við þær hömlur sem þessar veiðar annars þurfa að þola.  LS hefur ítrekað skorað á stjórnvöld að taka handfæraveiðarnar út fyrir sviga og láta þær afskiptalausar hvað aflahámörk varða og að hlutdeildir annarra skerðist ekki vegna þeirra.  Enn sem komið er hefur þessi málflutningur ekki hlotið hljómgrunn hjá ráðamönnum.  Það er miður, en haldið verður áfram að berjast fyrir málinu.


Á dögunum kom Framfarafélag Öxarfjarðar saman til fundar og samþykkti eftirfarandi:   

Áskorun til sjávarútvegsráðherra frá starfshópi á vegum Framfarafélags Öxarfjarðar 


Tillaga um frjálsar handfæraveiðar

Núverandi strandveiðikerfi er góðra gjalda vert, en betur má gera ef duga skal þeim sjávarbyggðum sem veikast standa.

Það þarf að gefa handfæraveiðar frjálsar með þeim takmörkunum einum að ekki séu fleiri en tvær sjálfvirkar handfærarúllur á hvern mann í áhöfn. Afli sem á land kemur sé algerlega utan núverandi aflamarkskerfis og rýri ekki úthlutun til þess. Hæfilegt gjald af hverju þorskígildi renni í sveitarsjóð þar sem afla er landað.

Koma þarf skýrt fram í lögum þar um að slíkt kerfi muni aldrei mynda eign eða framseljanleg réttindi.

Greinargerð.

1. Núverandi strandveiðikerfi hefur ýmsa ágalla sem þarf að lagfæra. Til dæmis myndar   það óþarfa spennu og keppni sem dregur úr hagkvæmni þess. Væri þessu breytt, mundi á ekki löngum tíma, veiðar færast í rólegra horf sem fyrrum.

 2. Handfæraveiðar eru það háðar veðri og fiskigengd að frá því land byggðist hefur drottinn verið fullfær um að stjórna þeim og ekki þurft við það neina aðstoð.

 3. Afli sem á land kæmi með frjálsum handfæraveiðum yrði tæplega nema hluti af þeim stofni sem Hafró hefur öðru hvoru tínt úr stofnstærðarbókhaldi sínu og þurft að leiðrétta eftirá.

4. Handfæraveiðar geta vegna áður taldra takmarkana aldrei ógnað nokkrum fiskistofni.

5. Það er óþarfi og bruðl að sækja afla í sjó með skipum sem kosta milljarða ef gera má það með fleytum sem kosta fáar milljónir, auk þess að fleiri störf verða til.

6. Munur á olíueyðslu er verulegur eftir stærð skipa og veiðarfærum. Dæmi er um handfærabát sem eyddi 3.5 lítrum af olíu á hvert tonn upp úr sjó á sumarúthaldi en samkvæmt rannsókn hjá Fiskifélagi Íslands er meðalolíueyðsla ísfisktogara um 410 lítrar á hvert tonn upp úr sjó.

7. Dagatakmarkanir eru slæmar að því leyti að hæglega geta verið brælur á virkum dögum en blíða um helgar. Og þá getur það freistað manna í brælu á virkum degi að stunda veiðar í landvari og á grunnsævi á lélegum fiski.

8. Tímatakmarkanir á róðri mismuna gróflega og takmarka möguleika þeirra sem róa á hæggengum, ódýrum og olíusparandi bátum. Auk þess kemur þessi tilhögun í veg fyrir að gera sem fyrrum á þilfarsbátum, að vera einhverja sólarhringa í róðri og slægja og ísa eða jafnvel salta aflann um borð.

9. Margar sjávarbyggðir, sérstaklega þær minni, eiga í vök að verjast. Góðærið fór þar hjá garði, en afleiðingar hrunsins bitna á þeim með fullum þunga. Það er nákvæmlega ekkert betur fallið til að styrkja þær en að leyfa auknar veiðar og að þær fái að njóta þess sem skóp þær, sem er hagkvæmni til fiskveiða.


Hafa má í huga að undanfarin ár hefur of stór hluti íslenska fiskveiðiflotans verið á flótta undan þorski, vegna of lítilla veiðiheimilda. Undantekningarlítið hafa þeir skipsstjórar sem komið hafa fram í fjölmiðlum mælt með auknum þorskveiðum og talið stofninn vanmetinn en á þá hefur ekkert verið hlustað.


Framfarafélag Öxarfjarðar

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...