Sérstaða smábátaeigenda - Landssamband smábátaeigenda

Sérstaða smábátaeigendaÍ Fiskifréttum sem út komu 24. maí sl. ritaði Örn Pálsson grein um frumvarp um veiðigjöld.  

„LS leggur áherslu á að atvinnuveganefnd Alþingis virði sjónarmið félagsins og setji inn þriðja gjaldflokkinn - smábátar - sem taki sérstaklega mið af afkomu þessa útgerðarflokks.“


Atvinnuveganefnd Alþingis hefur frumvörpin tvö um veiðigjöld og stjórn fiskveiða til meðferðar. Þetta er vandasamt verk þar sem frumvörpin fela í sér gríðarlegar breytingar á umhverfi sjávarútvegsins sem margir umsagnaraðila nefndarinnar eru ekki par hrifnir af. Hér verður stuttlega vikið að frumvarpi um veiðigjöld. 
ÖP 05-2009.jpg
Greitt skal fyrir afnot af auðlindinni. Frumvarpið gerir ráð fyrir að greiðslan verði af þeirri stærðargráðu að rekstri fjölmargra útgerða verður ógnað og þar með rekstri fyrirtækja sem útgerðin tengist svo sem þjónustufyrirtækjum af margvíslegu tagi. Slíkt getur að sjálfsögðu ekki gengið og þarf engan að undra þótt fast sé spyrnt gegn þessum áformum.

Forsagan
Fyrir ári var staðan þannig að til meðferðar var frumvarp sem gerði ráð fyrir fyrningu veiðiheimilda. Með því hugðust stjórnvöld innkalla kvótann smám saman og endurúthluta gegn gjaldi. Þar sem frumvarpið sætti harðri andstöðu og ekki var þingmeirihluti fyrir því var fallið frá þeirri leið.  
LS hvatti stjórnvöld til að skipta ekki um hest í miðri á. Tiltölulega breið sátt væri um beinan tekjustofn ríkisins - veiðigjaldið. Á því bæri að byggja áfram og ekki óeðlilegt að bæta við það á góðæristímum einstakra útgerðaflokka.

Þá var skorað á stjórnvöld að byggja breytingar á niðurstöðum sáttanefndarinnar sem gerði ráð fyrir samningaleið, að stjórnvöld gerðu samning við útgerðaraðila um nýtingu sjávarauðlindarinnar til ákveðins tíma þar sem kvótinn væri óumdeilt í eigu þjóðarinnar. Útgerðaraðilar mundu með samningi falla frá öllum kröfum um eignarhald á kvótanum.

Rétt er að árétta hér að Landssamband smábátaeigenda (LS) hefur að vísu aldrei litið á kvótann sem eign, heldur að veiðiheimildir tryggi viðkomandi ákveðinn veiðirétt og þar með atvinnuöryggi til langs tíma.

Stærsti gallinn
Veiðigjald eins og útgerðin greiðir nú skilar þjóðinni fjórum og hálfum milljarði.  Flestir í sjávarútvegi telja eðlilegt að það verði hækkað þannig að tekjur af því verið nálægt 10 - 12 milljörðum.  Sú prósenta sem frumvarpið leggur til skilar hins vegar langtum hærri upphæð.  Að mati sérfræðinga á þriðja tug milljarða.

Stærsti gallinn á útfærslunni er hins vegar sá að ekki er tekið tillit til stöðu hvers og eins heldur er greiðendum skipt í tvo hópa, uppsjávar- og bolfiskskip.  
LS hefur í umsögn til atvinnuveganefndar bent á að óhjákvæmilegt sé að setja krókabáta í sér flokk. Meðal þeirra atriða sem mæla með því eru: 
Yfir níutíuprósent veiðiheimilda þeirra eru í þorski, ýsu, steinbít og ufsa, sem fyrirhugað er       að skili ekki fullri hlutdeild.
Krókabátar hafa aðeins búið við altækt kvótakerfi frá 2004 og þar af leiðandi hafa viðskipti       þar með aflahlutdeildir verið meiri en hjá öðrum sem leitt hefur til mikillar skuldsetningar.
Krókaaflamarksbátar hafa aðeins heimild til að nota línu- eða handfæri við veiðarnar.

Þegar aðeins er litið til þessara þátta sést vel að ekki er hægt að leggja að jöfnu reglur um veiðigjald hjá af þeim og vinnslutogurum.  

Misjafnlega staddir 
Innan hópsins eru aðilar misjafnlega á vegi staddir.  Hluti er nýkominn inn í kerfið og hefur keypt sér veiðiheimildir, aðrir hafa verið að bæta við sig veiðiheimildum. Enn aðrir hafa ekki talið sig þurfa þess, enda búnir að vera í kerfinu lengi.
Í frumvarpinu um veiðigjald er ekkert sem jafnar þennan aðstöðumun en ég bind vonir um að atvinnuveganefnd taki tillit til þessara sjónarmiða við afgreiðslu frumvarpsins til annarrar umræðu.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur eftirfarandi fram sem styður sjónarmið LS: 
„Afkoman er nokkuð misjöfn eftir stærð og tegund skipa 
og árum og breytileg innan skipaflokkanna.“ 

Á öðrum stað í greinargerð frumvarpsins:
„EBITDA sem hlutfall af tekjum hefur verið frá um 17% upp í rúmlega 26%“.   
Hér er miðað við 10 ára tímabil í fiskveiðum - 2001 til 2010.

Engar upplýsingar liggja fyrir í þessum útreikningum fyrir krókaaflamarksbáta hjá höfundum frumvarpsins.  Ekki var á neinu vinnslustigi þess leitað til félagsins um tölur.  

Þriðja gjaldflokkinn
Í óbirtri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kemur fram að hlutfallið á árum 2002 - 2004  var að meðaltali 12,9% eða nokkru undir því lágmarki sem hér er vitnað til að sé forsenda fyrir hækkun gjaldsins.  Með sanngjörnum framreikningi LS til 2007 verður meðaltalið 14,3% þar sem aðeins tvö ár af þeim sex sem hér eru undir ná upp fyrir 17% lágmarkið.
 
LS leggur áherslu á að atvinnuveganefnd Alþingis virði sjónarmið félagsins og setji inn þriðja gjaldflokkinn - smábátar - og taki sérstaklega mið af afkomu þess útgerðarflokks.


Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...