Fróðleiksmolar frá Rio +20 ráðstefnunni - Landssamband smábátaeigenda

Fróðleiksmolar frá Rio +20 ráðstefnunni


Stærsta ráðstefna sem nokkru sinni hefur verið haldin um umhverfismál hefur staðið yfir í Rio de Janeiro undanfarna daga og lýkur á sunnudag. Heiti ráðstefnunnar er Rio +20 sem vísar til þess að 20 ár eru liðin síðan Rio ráðstefnan var haldin sem fæddi af sér hinn svokallaða Rio sáttmála um umhverfismál.  Nú er verið að leggja lokahönd á það sem margir vonast til að verði framhald þess sáttmála. Margar efasemdaraddir heyrast þó og t.d. talað um loftbóluhugmyndir og fleira í þeim dúr.

Hvað sem því líður hafa ráðstefnur sem Rio +20 mikil áhrif og það vita þeir mætavel sem nú sitja sveittir við að setja saman lokayfirlýsingu ráðstefnunnar.  Huga þarf að hverju orði því allir ætla að túlka sjálfum sér sem mest í hag á síðari stigum.

Eins og nærri má geta er magn skjala, skýrslna og alls kyns gagna gríðarlegt á jafn umfangsmikilli samkomu. Flest er torf til yfirlestrar, sumt leiðinlegra en tárum taki, en svo eru molar inná milli sem eru auðmeltari.

Hér eru nokkrir þeirra:

72% yfirborðs jarðar er undir höfum og 95% lífríkisins á þar heima. Allt til dagsins í dag er 95% hluti hafanna órannsakaður.

Helmingur súrefnisins á jörðinni framleiðist í höfunum.

Höfin leika meginhlutföll í kolefnahringrás jarðar. Þau endurvinna yfir 93% koltvísýrings og draga til sín 26% þess magns koltvísýrings sem fer út í andrúmsloftið af manna völdum.

Yfir helmingur mannkyns í hinum 183 ríkjum jarðar býr á strandsvæðum, þar af eru 13 af 20 „ofur“borgum heims á strandsvæðum.

Yfir 60% af allri verðmætasköpun heimsins verður til í, á eða innan 100 km frá ströndum heims.

Það er talið að fiskveiði-iðnaðurinn framfleiti um 540 milljónum manns.  Einnig er talið að fiskveiðar standi undir 15% dýrapróteinsneyslu 4,2 milljarða manna.

Talið er að hálfur milljarður manna treysti efnahagslega á kórallarif heimsins.

U.þ.b. 1/3 hráolíu heimsins er í dag dælt af svæðum fyrir utan strandsvæði og á eftir að aukast mikið á næstu áratugum.

Fragtflutningar á sjó sjá um 90% af vöruflutningum heimsins.
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...