Hafró leggur til 9. minnsta þorskafla á Íslandsmiðum síðan 1943 - Landssamband smábátaeigenda

Hafró leggur til 9. minnsta þorskafla á Íslandsmiðum síðan 1943


Það var undarleg upplifun að hlusta á hádegisfréttir Ríkisútvarpsins í dag. Þar var eðlilega fjallað um tillögur Hafró að aflahámörkum fyrir fiskveiðiárið 2012/2013. Fréttamaður RÚV var á vettvangi er Hafró kynnti tillögur sínar í Hörpu um hádegisbilið og tók fréttamaðurinn viðtal við forstjóra stofnunarinnar að kynningu lokinni. 
Talið barst strax að þorskinum og fréttamaðurinn spurði á þessa leið: „hvað liggur til grundvallar því að leggja til að auka þoskveiðarnar svo mjög?"

Það má mikið vera ef þeir hafi ekki verið allnokkrir sem stundu þungan við að hlusta á þetta:  Að „...auka....svo mjög..."!

Það eru 27 ár síðan Hafró hóf að nota aðferðina sem enn er notuð í dag til að mæla stærð fiskistofna, þ.e. togararallið. Það er enn lengra síðan að Hafró hóf að gefa ráðgjöf í tonnum talið og það eru hátt í 20 ár síðan heildarveiðarnar á þorski fóru að vera innan þeirra skekkjumarka sem stofnunin sjálf talar um að sé í stofnstærðarmælingunum. 

Það vafðist ekkert fyrir mönnum árið 1984 hver var meginforsenda þess að kyngja því að  fiskveiðistjórnunarkerfið var þá sett til bráðabirgða.  Ástand þorskstofnsins var svo grafalvarlegt að landauðn blasti við, að óbreyttu. 

Þrátt fyrir þennan yfirvofandi heimsendi lagði Hafró til 200 þúsund tonna þorskafla árið 1984. Stjórnvöld gáfu leyfi fyrir veiðum á 242 þúsundum tonna og heildarveiðin reyndist 283 þúsund tonn, eða 106 þúsundum tonna meiri en á yfirstandandi fiskveiðiári.

Sá grunur hlýtur að hafa læðst að einhverjum þegar þessar staðreyndir lágu fyrir að nú yrði óhjákvæmilegt að skera svo hraustlega niður veiðiheimildirnar árið á eftir, að veiðarnar lægju að mestu niðri árið 1985. 

Ekki fór það svo: Hafró lagði aftur til 200 þúsund tonna afla 1985, en heildarveiðin það árið fór hvorki meira né minna en í 326 þúsund tonn, eða 63% framúr því sem stofnunin lagði til og 149 þúsund tonnum meiri en á yfirstandandi fiskveiðiári.

Hafi menn haft áhyggjur af því að öll „umframveiðin“ á árinu 1984 kæmi niður á úthlutun næsta árs hljóta þeir hinir sömu að hafa verið á barmi taugaáfalls eftir hina hrikalegu „umframveiði“ 1985. Nú hlyti að draga til tíðinda á árinu 1986. 

Svo sannarlega gerðist það.  Hafró lagði nefnilega til 300 þúsund tonna heildarafla fyrir það ár og þrátt fyrir að veiðin yrði tæplega 10% meiri en það, lagði stofnunin til 300 þúsund tonn fyrir árið þar á eftir.

----

Á næstu dögum verður fjallað um þessi mál hér á síðunni og rifjuð upp ummæli og fullyrðingar sem flogið hafa fyrir í gegnum árin. 

1 Athugasemdir

Góður pistill. Friðunarsinnar stefna framtíð fiskveiða við Ísland í mikla hættu.
Sú kenning að hægt sé að geyma fisk í sjónum gengur ekki upp.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...