Samþykkt stjórnarfundar 6. júní 2012 - Landssamband smábátaeigenda

Samþykkt stjórnarfundar 6. júní 2012Stjórn Landssambands smábátaeigenda fundaði í dag í Reykjavík. Í lok fundar var samþykkt eftirfarandi ályktun:


„Samþykkt stjórnarfundar Landssambands smábátaeigenda 6. júní 2012, haldinn í Reykjavík

Stjórn Landssambands smábátaeigenda furðar sig á vinnubrögðum ríkisstjórnar Íslands gagnvart undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginum.  Framkomin frumvörp hennar munu á örfáum árum, með ofurskattlagningu og vanhugsuðum lagabreytingum, gera stærstan hluta fyrirtækjanna óstarfhæfan.

Þessar aðgerðir eru ekkert annað en ígildi skemmdarverka á heilli atvinnugrein og munu verða þess valdandi að heil stétt fólks er rænd lífsviðurværi sínu.
Nú stendur landsbyggðarfólk á Íslandi frammi fyrir þeirri staðreynd að soga á allt mögulegt fjármagn útúr sjávarútveginum og þar með stærstan hluta þess fjármagns sem landsbyggðin hefði annars til fjárfestinga.

Landssamband smábátaeigenda er og mun verða málsvari hinna dreifðu byggða.  Þess vegna getur félagið ekki með nokkru móti látið það gerast án þess að grípa til aðgerða, þar með talið þeirra sem staðið er fyrir þessa dagana.

Í lögum er talað um neyðarrétt sem síðasta hálmstrá fólks sem sett er í vonlausar aðstæður.  Nái frumvörpin fram að ganga mun löggjafinn kalla yfir stóran hluta þjóðarinnar slíkar aðstæður að mögulegt er að fólk grípi til einhverskonar neyðarréttar með afleiðingum sem enginn sér fyrir í dag.

Stjórn Landssambands smábátaeigenda krefst þess að frumvörp um veiðigjald og fiskveiðistjórnun verði þegar í stað dregin til baka.
Landssamband smábátaeigenda lýsir sig enn og aftur reiðubúið til viðræðna við stjórnvöld.

Að endingu:  Stjórn Landssambands smábátaeigenda skorar á félagsmenn að binda báta sína á morgun, fimmtudaginn 7. júní og taka þátt í mótmælum við Alþingishúsið hinn sama dag.


Stjórn Landssambands smábátaeigenda“
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...