Vegir ýsuvísindanna eru órannsakanlegir - Landssamband smábátaeigenda

Vegir ýsuvísindanna eru órannsakanlegir


Eins og allir vita sem hafa kynnt sér grundvallaratriði fiskifræðinnar, mun það hafa borið til fyrir margt löngu, að framkvæmdastjóri og aðaleigandi fyrirtækisins sem oftast er kallað "Í Neðra" langaði í fiskmeti. 
Hann dýfði í því skini klósettri krumlunni í hafið og varð þar fyrir stútungs ýsusporður sem framkvæmdastjórinn greip um hið snarasta.
En ýsan er hál sem áll og með snörpu viðbragði og miklu átaki náði hún að smokra sér fram úr hinni logheitu greip. 
Lifandi slapp hún en bar þess alla tíð merki og frá þeim tíma allir hennar afkomendur allt til dagsins í dag.  Brunablettina við eyruggana og rispurnar á hliðunum eftir karlskrattann virðist hún ekki ætla að losna við.

Þessi saga rifjast upp þegar farið er í gegnum söguna varðandi ýsuveiðarnar við landið síðustu áratugina og hvernig aðkoma vísindanna að veiðunum síðan 1984 virðist vera á pari við brunablettina og rákirnar.

Fyrst að grundvallarupplýsingum sem hver sem er getur nálgast. Hér er línurit sem sýnir ýsuveiðina og ráðgjöf Hafró frá 1984. 

Screen Shot 2012-06-11 at 11.51.19 PM.png

Það fyrsta sem vekur athygli er hversu nákvæmlega veiðin fylgir ráðgjöfinni.  Sú klisja sem mest er notuð í heiminum í dag (og til langs tíma), þegar ræddar eru ástæður lélegs ástands einhvers fiskistofns, er að fiskimenn hafi ofveitt og gengið illa um. Í tilfelli ýsunnar hér við land er illu heilli fyrir þá sem hafa þennan frasa á heilanum, ekki hægt að nota hann. Fylgni veiðinnar við ráðgjöf er hvorki meiri né minni en 95%. 

Þá er ekki síður athyglivert að á þessu tímabili hefur veiðin verið minni en ráðgjöfin í 10 ár af 28 og í mörg þeirra skipta sem veiðin var umfram, voru það mjög lágar tölur.  
Náttúran virðist hinsvegar ekkert gera með brambolt okkar mannanna. Hún sveiflar stærðum fiskistofna og annarra íbúa í hafinu upp og niður án þess að biðja um leyfi eða láta vita.

Í þessu sambandi er athyglivert að skoða veiðina aftur að árinu sem veitt var minna en Hafró leggur til að veitt verði á næsta fiskveiðiári, þ.e. 32 þúsund tonn af ýsu.  Þetta var árið 1946, eða fyrir 66 árum.  Á föstudaginn var rétt minnst á þorskinn hér á síðunni, en í hans tilfelli er Hafró að leggja til 9. minnstu veiði frá árinu 1943. Þeir sem þetta lesa sjá vitaskuld samhengið við heimsatburðna og þessi ártöl. 

Hér er línurit sem sýnir ýsuveiðina frá og með árinu 1947 og til yfirstandandi fiskveiðiárs, 2011/2012. 

Screen Shot 2012-06-12 at 12.45.19 AM.png
Eins og fyrr greinir var það árið 1984, sama ár og kvótakerfið var lögfest, sem Hafró hóf að gefa ráðgjöf varðandi ýsuna. Því er ekki úr vegi að skipta tímabilinu frá 1946 í tvennt og skoða árangurinn. 

Meðalveiðin á fyrra tímabilinu, þ.e. 1947 til 1984 er 61.800 tonn. Fer hæst í 119 þúsund tonn árið 1962 og lægst í 33 þúsund tonn árið 1947.

Meðalveiðin á seinna tímabilinu, þ.e. 1984 til dagsins í dag er 60.100 tonn. Fer hæst í 111 þúsund fiskveiðiárið 2007/2008 og lægst í 38 þúsund tonn fiskveiðiárið 1997/1998.

Munurinn er ekki stórvægilegur:  1700 tonnum minni meðalafli á stjórnunar-, lokunar-, friðunar-, möskvastækkunar- o.s.frv. o.s.frv. tímabilinu. Með þeim glæsilega árangri sem nú blasir við - að mati Hafró - og kom fram í Fréttablaðinu um helgina:

Screen Shot 2012-06-11 at 10.20.49 PM.png

Hvernig Hafró hyggst stöðva ýsuveiðar við landið hlýtur að vera með bröttustu fyrirætlunum sem  sést hafa hérlendis. Það veit hver kjaftur sem á sjó hefur farið, að sé ætlunin að stöðva ýsuveiðar, þarf að stöðva nánast allar þorskveiðar og ýmislegt fleira.  Eina veiðarfærið sem reyndar gæti dugað og veiðir hverfandi magn af ýsu, er handfærið. 
Það verður reyndar ekki séð að handfærið sé í miklu uppáhaldi þessa dagana.  Á stuttum tíma hafa dunið yfir 12 skyndilokanir á handfæraveiðar. Ekki vanþörf á, miðað við tjónið sem þetta skaðræðistæki getur ollið. 

En það er kaldhæðnislegt að skoða þessar upplýsingar um ýsuna. Á stjórnleysistímabilinu var aflinn sá sami og á „sjálfbæra/ábyrga“ tímabilinu. 
Er ekki löngu kominn tími til að endurskoða alla viðleitni okkar mannanna til að láta náttúruna gegna okkur?  
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...