Smábátaveiðar á borði COFI fundar Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna - Landssamband smábátaeigenda

Smábátaveiðar á borði COFI fundar Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna


Þessa vikuna stendur yfir í Róm COFI fundur Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO). Fundurinn er hinn þrítugasti í röðinni. COFI stendur fyrir "Committee on Fisheries" og er stærsti fundur sem haldinn er um málefni sjávarútvegs í heiminum.  

Til skamms tíma var þar lítið fjallað um málefni smábátaveiða og það var ekki fyrr en árið 2003 sem þær komust á dagskrá COFI, eftir áratuga afskiptaleysi fundarins af málaflokknum.  

Þetta er því merkilegra í ljósi þess að nú, árið 2012, tæpum áratug síðar, keppast þjóðirnar sem þátt taka í fundinum við að lýsa því yfir að veiðar smábáta séu forgangsmál í umfjöllun um sjávarútveginn.

Alþjóðasamtök strandveiðimanna (WFF - World Forum of Fish Harvesters and Fish Workers) komust fyrst að sem áheyrnarfulltrúar á COFI fundinum árið 2003.
 
Síðan þá hefur WFF, sem og systursamtök þeirra sem eru afsprengi klofnings WFF árið 2000, unnið þrotlaust að því að kynna málefni og rök smábátaútgerðarinnar og hvers vegna FAO ætti að taka þær sérstaklega upp á sína arma.  Þessi tvö samtök hafa hægt og rólega verið að ná saman aftur, enda fátt sem skilur þau að. 

Í kjölfar COFI fundarinns árið 2011 hefur FAO, í samvinnu við framangreinda aðila og fleiri, staðið að ráðstefnum og vinnufundum út um allan heim, þar sem smábáta- og strandveiðimönnum hefur verið gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri varðandi réttarlega stöðu þeirra gagnvart nýtingu fiskistofna og hafrýmisins almennt, sem og önnur grundvallarmálefni sjávarútvegsins.

Í morgun, fimmtudaginn 12. júlí kl. 07:00 að íslenskum tíma hófst dagskrá COFI fundarins á umfjöllun um smábátaveiðar.  Þar voru teknar fyrir svokallaðar "Volutary Guidelines for Securing Sustainable Small Scale Fisheries", sem er afrakstur framangreindar vinnu.
Þessum leiðbeinandi reglum er ætlað að tryggja stöðu smábáta- og strandveiðanna í heiminum. Víða er pottur illa brotinn hvað varðar grundvallar réttindi og hvernig sem á því stendur virðast smábátaeigendur ætíð þurfa að vera á varðbergi hvað þessi mál varða, jafnvel í löndum sem telja sig „þróuð“ og með réttindi þegnanna á hreinu.  

COFI fundurinn samþykki svo um hádegisbilið  áframhaldandi ferli málsins, sem þýðir m.a. að félagasamtökum smábátaeigenda/veiðimanna t.d. í Norður-Atlantshafi gefst tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum og athugasemdum að, áður en COFI 2014 fundurinn verður haldinn. 

Framundan er sú áskorun að félagasamtök smábátaeigenda/strandveiðimanna í norðri sameinist um tillögur til FAO um tilhögun og framkvæmd þessara reglna. 

Photo on 7-10-12 at 2.41 PM.jpg

                 Séð yfir fundarsal COFI fundarins í FAO byggingunni í Róm


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...