Frakkar sólgnir í þorsk og Bretar í ýsu - Landssamband smábátaeigenda

Frakkar sólgnir í þorsk og Bretar í ýsuGríðarleg magnaukning hefur orðið í útflutningi á ferskum þorski og ýsu til Frakklands á fyrstu sjö mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra.
Aukningin er 49% í þorskinum og 127% í ýsunni.


Þorskur
Frakkar kaupa langmest allra þjóða héðan af ferskum þorski eða um helmingi meira en Bretar sem eru næstir.  Alls hefur tæp 40% af öllum ferskum þorski verið seldur til Frakklands nú, en á fyrstu sjö mánuðum síðasta árs var hlutfallið 35%. 
Verulega magnaukning er einnig til Belgíu, Bandaríkjanna og Sviss sem eru í þriðja til fimmta sæti yfir helstu kaupendur okkar af ferskum þorski.   Þróunin virðist vera sú að auk meira framboðs hefur aukningin orðið á kostnað Breta sem keyptu mest á fyrstu sjö mánuðum síðasta árs, en fengu nú í ár 2% minna.
Þorskur í roðflettum bitum er 72% af heildarútflutningsmagninu

Útflutningsverðmæti á ferskum þorski á fyrstu sjö mánuðum þessar árs nemur 12,4 milljörðum.


Ýsa
Fersk ýsa skilaði tæpum 3,4 milljörðum í útflutningsverðmæti á tímabilinu janúar - júlí þessa árs, sem er 648 milljónum meira en á sama tímabili í fyrra.
Bretar kaupa héðan langmest af ýsu og var hlutfallið 46% á þessu ári.  Næstmest er flutt út til Bandaríkjanna og Frakkar eru í þriðja sæti.
Ýsuflök með roði er tæpur helmingur af heildarútflutningsmagninu.

Við skoðun á meðalverði á ferskum þorski og ýsu kemur í ljóst að þorskur var fjórðungi dýrari á umræddu tímabili í fyrra en nú er verðmunurinn 15%.Unnið upp úr talnaefni Hagstofu Íslands  

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...