Strandveiðar og stærðarmörk krókaaflamarksbáta - Landssamband smábátaeigenda

Strandveiðar og stærðarmörk krókaaflamarksbátaDreift hefur verið á Alþingi stjórnarfrumvarpi til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða.  Annars vegar eru það breyting á strandveiðikafla laganna og hins vegar er að sögn höfunda skerpt á 15 brúttótonna stærðarmörkum krókaaflamarksbáta.

Frumvarpið er hægt að nálgast með því að blikka hér

Viðbrögð framkvæmdastjóra LS komu að hluta til fram í Morgunblaðinu í dag, hér birtast þau í heild.   
„Frumvarpið eru viðbrögð ráðuneytisins við erindi LS þar sem gagnrýnt var harðlega að Fiskistofa hefði heimilað nýtingu krókaaflamarks á bát yfir stærðarmörkum krókaaflamarksbáta.  Gjörningurinn virðist hafa leitt framkvæmdavaldið í ógöngur, þar sem nú á að verðlauna þennan aðila, sem hefur olnbogað sig á það stig sem hann nú situr fastur, inn í aflamarkið eða eins og segir í athugasemdum við lögin:  „Í raun er hér um mögulegan ávinning a ræða fyrir hlutaðeigandi ef horft er til þess að verð varanlegrar hlutdeildar í aflamarki er nokkuð hærra en hlutdeildar í krókaaflamarki.“   
Því er við þetta að bæta að LS hefur ásamt alþingismönnum sem stóðu að breytingum laganna 2002 aldrei efast um að óheimilt væri að nýta krókaaflamark á báta frá 15 brt. og upp úr“, segir Örn Pálsson framkvæmdastjóri sambands smábátaeigenda.

Jafnframt er í frumvarpinu hlutdeild strandveiða í heildaraflamarki fest við 3,6% í stað þess að vera 6000 tonn. Miðað við þau 200 þúsund tonn sem veidd voru á síðasta fiskveiðiári hefði hlutdeild strandveiða verið 7200 tonn.
„LS samþykkti á aðalfundi sínum í október sl. að afli til strandveiða yrði hrein viðbót við útgefið heildaraflamark og þar af leiðandi mundu ekki skerða heimildir annarra skipa.   Aflinn mundi stýrast af þeim takmörkunum sem nú eru auk náttúrulegra þátta svo sem fiskgengd á grunnslóð og veðri.    
Það er fagnaðarefni að strandveiðar skuli festar í sessi en um leið miður að ekki skuli fylgt tillögum smábátaeigenda“, sagði Örn Pálsson.
2 Athugasemdir

Sælir félagar!
Nú finnst mér að við þurfum að rísa upp á afturlappirnar og mótmæla harðlega... Þetta kemur fram í athugasemd með frumvarpinu "Verði frumvarpið að lögum mun þessum aðila bjóðast að flytjast úr krókaaflamarkskerfinu í aflamarkskerfið." Við getum varla sætt okkur við að aflaheimildir séu fluttar frá krókabátum. Ég held að útgerðin á Bíldsey hljóti að geta selt krókaaflaheimildirnar sínar og keypt sig svo inn í aflamarkið, ef hann vill vera þar!!! Er heldur nokkur ástæða til að verðlauna neinn fyrir að reyna að komast framhjá reglum?

Sælir félagar. Varðandi breytingar á strandveiðikerfinu þykir mér það algert bull að hafa það tvöfalt. Það er annars vegar óbreytt fyrikomulag og svo að menn geti valið að fara bara 3 daga í mánuði og velja þá sjálfir í stað þess að freista þess í blindni að komast lifandi frá því að fara 4. fyrstu daga mánaðarins. Nær þætti mér að gefið væri út fyrirfram hvað menn mættu róa marga daga í mánuði, sem þeir gætu valið sjálfir þó svo að notast væri við núverandi axlabönd og belti, það myndi stuðla að auknu öryggi, meiri hagkvæmni og betra hráefni. Í þessu sambandi sægi ég fyrir mér svona 8-12 daga í mánuði.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...