Ýsuvandræði rædd við ráðherra - Landssamband smábátaeigenda

Ýsuvandræði rædd við ráðherraNýverið fundaði LS með Steingrími J. Sigfússyni atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra.  Mörg brýn málefni smábátaeigenda voru rædd á fundinum.  Má þar nefna:

  • Ýsugengd á grunnslóð ekki í neinu samhengi við ráðgjöf Hafró
  • Vandræði grásleppukarla sem eiga óseld hrogn frá síðustu vertíð
  • Makrílveiðar 2013, mikill áhugi smábátaeigenda
  • Síldveiðar smábáta í Breiðafirði, mikilvægt að auka veiðiheimildir þeirra
  • Strandveiðar - framtíðarfyrirkomulag veiðanna
  • Byggðakvóti

Vakin var athygli ráðherra á samþykkt aðalfundar um ýsuna þar sem krafist er að ráðherra auki ýsukvótann í 50 þúsund tonn og hækki hlutdeild krókabáta í 25% af heildarúthlutun sem er í samræmi við veiðar þeirra undanfarin ár.   Ýsa - samþykkt aðalfundar.pdf.

Fram kom í máli LS að félagsmenn ættu í gríðarlegum erfiðleikum að nýta veiðiheimildir í þorski vegna mikillar ýsu á miðunum.  Hringlað hefði verið í reglum skiptimarkaðarins þannig að þar væri nú enga ýsu að fá.  Verðmæti væru öll úr skorðum.  Ekki væri hægt að fá ýsu í jöfnum skiptum fyrir þorsk, verðmiðinn nú væri 3 tonn af þorski fyrir 2 tonn af ýsu og ekki væri hægt að fá leigða ýsu öðru vísi en að greiða okurverð fyrir.  Óbreytt ástand mundi leiða til þess að ekki yrði hægt að stunda þorskveiðar, veiðar mundu stöðvast.

LS hvatti ráðherra til að úthluta nú þegar meiri ýsuheimildum.  Hægt væri að hafa ívilnunarkerfi á viðbótinni, þ.a. hún mundi nýtast þar sem þörfin væri mest, með veiðum dagróðrabáta á línu.   

Ráðherra vakti athygli á að ráðuneytið hefði látið skoða þessi mál sérstaklega fyrir LS á síðasta ári.  Það hefði ekki leitt til breytinga á ráðgjöf.  Hann sagðist reiðubúinn að skoða málið á nýjan leik enda væri honum vel kunnugt um vandamálið.
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...