Þorskveiðar smábáta í uppnámi - Landssamband smábátaeigenda

Þorskveiðar smábáta í uppnámiEftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum í dag 4. janúar


Skortur á ýsukvóta fyrir meðafla stöðvar krókaaflamarksflotann

Þorskveiðar smábáta í uppnámi 

Undanfarin þrjú fiskveiðiár hafa eigendur krókaaflamarksbáta átt í hreinustu vandræðum með að stunda veiðar með hefðbundnum hætti.  Sífellt hefur sóknin orðið afbrigðilegri og veiðarnar þar með óhagkvæmari.  Samsetning veiðiheimilda virðist ekki í samræmi við aflamagn í einstökum tegundum sem miðin gefa.


Áhersla á þorskveiðar í haust

Þegar menn skipulögðu fiskveiðiárið hugsuðu margir til þess að gríðarleg aukning þorskheimilda í Barentshafi myndi hafa áhrif á verð.  Þar sem fiskveiðiárið hjá Norðmönnum er almanaksárið myndi aukningin skila sér í upphafi þessa nýbyrjaða árs og því líklegt að verð myndi lækka fljótt eftir að veiðar hæfust.  Skipulagningin tók mið af þessu og því ákveðið að leggja mikla áherslu á þorskveiðar á fyrstu mánuðum yfirstandandi fiskveiðiárs.  Með þessa áætlun í huga var gengið til fiskveiðiársins, með smákvíða þó, þar sem veiðiheimildir í ýsu höfðu verið minnkaðar úr 45 þús. tonnum í 36 þús. tonn.


Ekki áttu allir heimangengt

Til að þessi áætlun gengi upp urðu krókaaflamarksbátar sem tök höfðu á að yfirgefa heimamið sín og færa sig austur fyrir land eins og stærri skipin gera einatt, þar sem minni líkur voru á að ýsa veiddist með þorskinum. Flestir eru hins vegar í þeirri stöðu að hafa ekki tök á slíku. Þeir urðu því að „vona“ að ráðgjöf Hafró um að minna væri af ýsu myndi ganga eftir og hún sem meðafli með þorskveiðum yrði ekki vandamál.  Einnig var hugsað til þess hvort það borgaði sig að fara um langan veg til þessa. Því miður standa fjölmargar þessara útgerða - sunnan Snæfellsnes, við Breiðafjörð, Vestfirði, Húnaflóa og langt austur eftir Norðurlandi - frammi fyrir því að geta vart farið á sjó til að veiða þorskinn.  Ýsukvótinn er allur uppurinn og hvorki skiptimarkaður né leigukvóti til að leysa málið. 


Hætta þarf þorskveiðum

Við útgerðum blasir því ákvörðun um að hætta veiðum, segja upp mannskapnum og freista þess að veiða þorskinn á handfæri. Mikil ýsugengd kom þannig í veg fyrir að áætlanir um þorskveiðar á fyrsta þriðjungi fiskveiðiársins gengju upp. Hlé verður óhjákvæmilega að gera á þorskveiðum, leggja bátnum með þeim afleiðingum að sjómenn og beitningafólk missir atvinnuna. Veiða þarf þorskinn á komandi sumri. Hvaða verð menn fá þá er útilokað að segja til um, en gangi sú formúla upp að aukið framboð leiði til verðlækkunar eru miklir erfiðleikar fyrirsjáanlegir.


Megnið af ýsukvótanum uppurið

Þegar Landssamband smábátaeigenda (LS) veitti Steingrími J. Sigfússyni atvinnuvegaráðherra ráðgjöf sína hinn 2. júlí sl. var varað við framanrituðu.  LS lagði til að veiðin yrði 50 þúsund tonn auk þess sem félagið lagði áherslu á og ítrekaði áhyggjur sínar af veiðum dragnótabáta og togara við Suðurland.  Skorað var á ráðherra að færa þær veiðar fjær landi og af hefðbundinni ýsuslóð. Auk þess voru skilaboð aðalfundar LS þau að línuívilnun skyldi ná til allra dagróðrabáta og hlutdeild krókabáta í heildarúthlutun yrði 25% sem er í samræmi við veiðar þeirra undanfarin ár.
Í dag er staðan sú að þrátt fyrir að nánast enginn skipstjóri krókaaflamarksbáts hafi leyft sér að fara í ýsuróður heldur líti á ýsuna sem meðafla með þorskinum hefur þessi bátaflokkur veitt þrjá fjórðu þeirra heimilda sem honum var úthlutað í upphafi fiskveiðiársins.  


Smáýsa smýgur trollmöskva

Í erindi, sem Höskuldur Björnsson sérfræðingur á veiðiráðgjafasviði Hafrannsóknastofnunarinnar hélt á aðalfundi LÍÚ, gerði hann grein fyrir ástandi ýsustofnsins. Hann sagði smáa og stóra ýsu halda sig oft á sömu svæðum sem gæti valdið afföllum á smáýsu við veiðar. Þar sem smáýsa kæmi vel fram í stofnmælingum og mun fleiri ýsur en þorskar fengjust í þeim mætti túlka það sem vísbendingu um að mikið af smáýsu lenti í trollum og slyppi þaðan.  Höskuldur benti á að ýsan væri talin viðkvæm fyrir þessu smugi, ekki síst eins árs gömul ýsa.  Leiðir til að draga úr þessum óbeinu afföllum væru m.a. þær að loka svæðum fyrir togveiðum tímabundið og auka hlutdeild línuveiða.


Togveiðibann á þekktum ýsuslóðum

Undirrituðum er það illskiljanlegt hvers vegna Hafrannsóknastofnunin hefur ekki komið þessari tillögu til sjávarútvegsráðherra.  Ég tel það óábyrgt þegar stofnunin metur það svo að nýliðun ýsu hafi verið lélegt fjögur ár í röð. 

Með skírskotun til framanritaðs er það mín skoðun að banna eigi tímabundið allar togveiðar á þekktum ýsuslóðum.

Skýringar óskast.

Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. 
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...