Aukin atvinnuuppbyggingu tengdar makrílveiðum - Landssamband smábátaeigenda

Aukin atvinnuuppbyggingu tengdar makrílveiðumInnlegg í makrílumræðuna eftir Óðinn Gestsson.


Á síðasta ári veiddum við Íslendingar tæp 150 þúsund tonn af makríl. Mestur hluti aflans var veiddur af stórum og afkastamiklum skipum.  Það er gott fyrir okkur sem þjóð að eiga öflugan flota sem afkastar miklu á stuttum tíma.  Það er líka gott fyrir okkur sem þjóð að eiga flota minni skipa sem geta tekið að sér fleiri verkefni og með því stuðlað að frekari uppbyggingu atvinnulífs um dreifðar byggðir landsins. 
OdinnGestsson2.jpg

Tækifæri í makrílnum
Einn helsti vandi í íslenskri fiskvinnslu, þ.e hjá þeim sem ekki hafa yfir að ráða aflaheimildum og útgerð innan sinna vébanda er skortur á hráefni til vinnslu. Með því að beina hluta veiðiheimilda í makríl á smábáta má leiða að því líkum að aflinn kæmi til vinnslu allt í kringum landið.  Fjölmargar fiskvinnslur sem glíma við skort á hráefni hluta ársins og eða allt árið,  getu þá fengið aðgang að hráefni gegnum fiskmarkaði.  Þannig mætti auka verkefni hjá því fólki sem þar starfar. Þá gætu sprottið upp einhverjir sem vildu búa til vörur sem gæfu meiri verðmæti með sérhæfðari vinnslu.    Við myndum í einhverjum tilfellum búa til fullunnar vörur, en mest af þeim makríl sem nú er seldur héðan er í blokk eða lausfrystur sem fer til framhaldsvinnslu erlendis með tilheyrandi fjölda starfa sem þar verða til.    Hér er tækifæri sem stjórnvöld verða að gefa gaum möguleikarnir eru fyrir hendi.  


Samkeppnin um fæðuna
Í smábátakerfinu er mikill skortur á kvóta í ýsu og ljóst er, ef ekkert verður að gert muni hluti smábátaflotans þurfa að hætta veiðum vegna þess. Það er kaldranalegt að hugsa til þess að um leið og makríllinn kemur inní íslenska lögsögu þá hefst samkeppni um fæðuna í sjónum, makríllinn mun taka sitt og aðrar tegundir þá væntanlega fá minna og síður lifa af í því umhverfi. Ef ekki er vilji til þess eða forsendur að auka við kvóta í ýsu gæti verið snjallt að beina þeim sem þannig er statt fyrir í veiðar á makríl. Ég er þó sannfærður um að auka megi kvóta í ýsu, og tel það mikilvægt vegna samsetningar í veiðum sérstaklega línuveiðum.


Eflum makrílveiðar smábáta
Á aðalfundi Landssambands smábátaeigenda var ályktað að makrílpottur fyrir smábáta 
þ.e. báta undir 15 brt. verði aukinn í 18% af heildarafla í makríl, þ.e. að lágmarki 
20.000 tonn í svipaðri fyrirmynd og þekkist erlendis, t.d. í Noregi.

Og smábátamenn færa rök fyrir þessari ályktun sinni.

a. Makrílveiðar á handfæri hafa verið stundaðar í nokkur ár. Þeir bátar 
sem stunduðu þessar veiðar á sl. fiskveiðiári gerðu það með mjög 
góðum árangri. Ljóst er að mjög hagkvæmt er að veiða makríl á 
handfæri miðað við önnur veiðarfæri.  Mikill áhugi er fyrir þessum 
veiðum og mjög margir hafa hug á þeim á næsta ári.  Samtímis því sem 
kaupendum sem hafa áhuga vegna gæða hans fer ört fjölgandi, mun 
úthlutun eins og hún hefur verið, engan veginn fullnægja þeirri þörf sem 
er fyrir þennan bátaflokk.

b. Helstu rök fyrir auknum veiðiheimildum til smábáta í makríl eru: 
• Veiðarnar eru umhverfisvænar
• Þær skila hágæða hráefni
• Þær eru mannaflsfrekar - atvinnuskapandi
• Þær afla mikillar þekkingar um göngur makríls á grunnslóð
• Makríll étur mikið af seiðum svo sem grásleppu-, þorsk- og 
  ýsuseiðum, sandsíli, rauðátu, ljósátu og smásíld.  Og ekki má 
  gleyma laxaseiðum.

Er þetta ekki eitthvað fyrir stjórnvöld að taka tilliti til þegar kemur að ákvörðun um skiptingu veiðiheimilda á vertíðinni 2013.


Óðinn Gestsson 
framkvæmdastjóri Íslandssögu 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...