Makrílfundur með ráðherra - Landssamband smábátaeigenda

Makrílfundur með ráðherra
Á morgun fimmtudaginn 14. febrúar mun forysta LS ganga á fund Steingríms J. Sigfússonar atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og ræða við hann um hlut smábáta í makrílveiðum.  Eins og fram hefur komið hefur ráðherra ákveðið að veidd verði 123.182 tonn á þessu ári.


Aðalfundur LS samþykkti að félagið ætti að berjast fyrir 18% hlutdeild í heildarveiðinni eða sama hlutfalli og Norðmenn úthluta til smábáta þar.  Marga rekur forvitni á að vita afstöðu ráðherrans í þessu máli, einkanlega í ljósi þess að á annað hundrað félagsmenn í LS hyggjast stunda makrílveiðar á komandi vertíð.


Bjartsýni ríkir hjá LS fyrir fundinn þar sem smábátar sönnuðu það rækilega á síðasta ári að þeir geta náð góðum árangri við makrílveiðar þegar hann gengur svo nálægt landi og gerðist þá.  Góður markaður er fyrir færaveiddan makríl sem þykir einstaklega gott hráefni.  


Vart þarf að taka fram að trillukörlum er afar mikilvægt að vel verði tekið í hugmyndir þeirra um makrílveiðar á komandi sumri.  Hvert áfallið af öðru hefur dunið yfir.  Skerðing veiðiheimilda í ýsu og steinbít, lokaður leigumarkaður fyrir ýsu sem gert hefur þorskveiðar lítt arðbærar, verðlækkun á þorski og nú síðast váleg tíðindi af veiðimöguleikum á grásleppu.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...