Makrílveiðar smábáta í brennidepli - Landssamband smábátaeigenda

Makrílveiðar smábáta í brennidepliUnnsteinn Þráinsson smábátaeigandi á Hornafirði sendi LS meðfylgjandi grein til birtingar á heimasíðunni.

Lítum um öxl, en horfum til framtíðar 

Þann 4. mars 2010 birtist í Fiskifréttum  grein sem bar fyrirsögnina „Góður kostur fyrir smábáta?“  Þar var verið að fjalla um möguleika smábáta til að veiða makríl á færi líkt og frændur okkar í Noregi hafa gert með góðum árangri. Ástæðan fyrir spurningarmerkinu var sú að þetta var nýr veiðiskapur fyrir okkur Íslendinga og á þessum tíma var sú þekking og sá búnaður sem notaður er við færaveiðar á makríl ekki fyrir hendi hérlendis, nema að litlu leyti. Menn voru því eðlilega ragir við að leggja í þann kostnað og eyða miklum tíma við að útbúa bátana til þessara veiða.

Unnsteinn Þráinsson.jpg

Stóru vinnslurnar vildu ekki makrílinn
Ekki hjálpaði það nú til að nánast engir, sem voru að vinna makríl á þessum tíma vildu kaupa krókaveiddan makríl af smábátum.
Af þessum ástæðum og einnig þeirri að menn höfðu enga vissu fyrir því að makríllinn tæki krókana á þessum árstíma, voru fáir sem lögðu í þá fjárfestingu og áhættu sem tilraunarveiðunum fylgdi.
Margir fylgdust spenntir með á hliðarlínunni en settu sig jafnframt í stellingar til að stökkva inná völlinn ef frumkvöðlavinnan skilaði árangri.
Þeir sem lögðu í tilraunaveiðarnar rákust á marga veggi, enda kostnaður meiri en margan grunar. Það hjálpaði að menn unnu mjög vel saman og miðluðu reynslu af óeigingirni sín á milli og náðu fyrir vikið tökum á veiðunum, en samhliða þróun veiðanna gekk makríllinn í auknum mæli upp að ströndinni á hefðbundna veiðislóð smábátaflotans.

Makrílveiðar góður kostur fyrir smábáta 
Það sem einnig hafði áhrif á að veiðarnar fóru að ganga upp, var að vinnslan í landi fékk áhuga á að kaupa færaveiddan makríl og borga gott verð.
Síðastliðið sumar stunduðu vel á annan tug smábáta færaveiðar á makríl.  Eftir mikla vinnu síðastliðinna ára, gengu veiðarnar nú vel og skiluðu góðum árangri.   
Nú er því loks hægt að svara þeirri spurningu játandi hvort makrílveiðar fyrir smábáta sé góður kostur.
Það hefur sýnt sig í gegnum árin að smábátaeigendur landsins eru duglegir að laga sig að breyttum aðstæðum í lífríkinu, enda hafa menn ávallt aðlagað sig að lífríkinu en ekki ætlast til að lífríkið aðlagist þeim.
Þetta er mikilvægt að hafa í huga nú þegar makríllinn er farinn að venja komu sína inn á alla firði og flóa landsins.
Hin hliðin snýr að mannanna verkum, lögum og reglugerðum sem flestum gengur einnig vel að aðlagast.  Þar ætlumst við réttilega til að regluverkið aðlagist okkur, en ekki við einungis því.
Þar eigum við nú allt undir, makrílveiðimenn framtíðarinnar, að vel takist til og ekki síst þeir sem rutt hafa brautina undanfarin ár, en nú telst það sýnt að makrílveiðar á færi geta verið mjög hagkvæmar og atvinnuskapandi fyrir land og þjóð.

Boltinn hjá stjórnvöldum
Meðgangan er búin að vera löng og ströng.  En hún hefur uppskorið árangur og fætt af sér sönnun þess að makrílveiðar smábáta við Ísland eru raunhæfar.  Hvort þær fái að vaxa og dafna í framtíðinni til velsældar fyrir þjóðina er undir stjórnvöldum komið.   Makríllinn er kominn á mið smábátanna og þeir tilbúnir að færa hann að landi.
Það er því afar mikilvægt að nægar veiðiheimildir fyrir komandi makrílvertíðir verði gefnar út þannig að smábátaflotinn geti stundað veiðarnar í auknum mæli með arðsömum hætti og skapað dýrmæt störf í landi sem á sjó.
Nú er framtíð makrílveiða smábáta í höndum Steingríms  J.  Sigfússonar og er ég bjartsýnn á að vel verði að málum staðið enda mikilvægt að hlúa að afkvæminu strax að fæðingu lokinni.                                                                                                                

Unnsteinn Þráinsson
Siggi Bessa SF  97

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...