Grásleppan í brennidepli fyrir norðan - Landssamband smábátaeigenda

Grásleppan í brennidepli fyrir norðanÍ gær hélt Klettur, félag smábátaeigenda á Norðurlandi (Ólafsfjörður-Húsavík), félagsfund á Strikinu á Akureyri.  Fundinum stýrði formaður Kletts, Pétur Sigurðsson og gestur var Arthur Bogason, formaður LS.
Fundurinn var vel sóttur og mjög góð þátttaka í málefnaumfjöllun og umræðum almennt.  Eins og við var að búast var staðan í grásleppumálum mikið rædd, en þær veiðar skipta fjölmarga smábátaeigendur miklu máli á svæðinu.

Það kom t.d. fram að í gegn um tíðina hefur þessi veiðiskapur einkennst af miklum sveiflum og að því leytinu staðan ekkert nýnæmi. Nema að einu leyti: Nú hefur Hafrannsóknastofnun farið að gefa veiðiráðgjöf og að því viðbættu er umhverfið gjöbreytt frá því sem var. Almennt var að heyra á fundarmönnum að þeir hefðu ekki ýkja mikla trú á stofnuninni til þeirra verka.

Í fundarlok var samþykkt svohljóðandi ályktun:

„Félagsfundur Kletts, haldinn á Akureyri 3. mars 2013 skorar á Atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að breyta nú þegar reglugerð um grásleppuveiðar frá 6. febrúar 2013, sem kveður á um hámarksfjölda neta hvers grásleppubáts, þannig að hámarksfjöldinn verði sá sami og hann hefur verið undanfarnar vertíðar.
Hámarksfjöldi neta samkvæmt reglugerðinni er 100 net (120 faðma áfelldar slöngur) á bát, en hefur verið 150 net undanfarin ár.
Fækkun neta um þriðjung skerpir afkomumöguleika grásleppusjómanna til viðbótar við þá skerðingu sem fram er komin með fækkun veiðidaga og lækkuðu afurðaverði. Vandséð er hvernig hægt er að ráða sjómenn til þessara veiða“.

Að loknum umræðum um þá gráu voru ýmis mál rædd, s.s. makríll, skortur á ýsuveiðiheimildum og skilningi stjórnvalda og Hafrannsóknastofnunar á stöðunni, og fleira. 

Eftirfarandi var samþykkt varðandi stöðuna varðandi ýsuveiðiheimildir:

„Félagsfundur Kletts, haldinn á Akureyri 3. mars 2013 skorar á Atvinnu- og nýsköpunarráðherra að úthluta viðbótar ýsukvóta sem leigður yrði út með svokallaðri skötuselsaðferð til þeirra báta sem fullnýtt hafa sína ýsuveiðiheimildir“.


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...