Hamast gegn strandveiðum - Landssamband smábátaeigenda

Hamast gegn strandveiðumEftirfarandi grein eftir Örn Pálsson birtist í Fiskifréttum 14. mars sl.

Af þessum sökum ber að fagna því sérstaklega að alþingismenn skuli vera sammála LS um að strandveiðar eigi að festa í sessi.


Umsagnir öflugra hagsmunasamtaka

Hamast gegn strandveiðum 

Í því mikla umróti sem nú á sér stað í þjóðfélaginu þarf að hafa sig allan við til að fylgjast með hvað í raun snýr upp eða niður í mörgum mikilvægum málefnum. Verðtryggingin í fyrradag, lífeyrissjóðirnir í gær, vantraust í dag, fréttir af nýjum stjórnmálaflokki á morgun, eldhúsdagsumræða næsta dag og ósætti um strandveiðar dregið fram á fimmtudaginn. Að undanskildu því síðastnefnda fylgir fjöldi blaðagreina, þétt umfjöllun á öldum ljósvakans í fréttum og dægurþáttum, ég tala nú ekki um allar þær ræður sem fluttar eru um málefnin á Alþingi.  Allt eiga málefnin þó sameiginlegt þegar þau koma til umfjöllunar - ósætti.


Lífvana sjávarþorp tóku kipp

Strandveiðar hafa verið stundaðar sl. fjögur ár eða frá júní 2009.  Reynslan af þeim hefur verið afargóð. Fjölmörg sjávarpláss sem voru að deyja drottni sínum yfir sumarið öðluðust líf aftur. Fiskvinnslan fór aftur í gang og skólafólkið fékk vinnu aftur. Ungt fólk var ráðið sem sjómenn á strandveiðibátana undir leiðsögn aðila sem komnir voru af léttasta skeiði, en kunna vel til verka. Þannig gerði vart við sig vísir að nýliðun. Brá fólks í áður lífvana sjávarþorpum tók kipp upp á við, höfnin öðlaðist líf fyrir forvitnum ferðamönnum sem áttu leið hjá. Endalaust rifrildi um kvótakerfið nær týndist, þegar fjöldi óánægðra fékk kröfu sína um frjálsar handfæraveiðar samþykkta.

ÖP 09-2009 A.jpg

Neikvæðar umsagnir

Ætla má að flestir sem hafa lesið það sem búið er af þessari grein láti það ekki hvarfla að sér að gegn strandveiðum sé sterk andstaða. Fjögur öflug hagsmunasamtök vilja strandveiðar burt.  Þær eigi engan rétt á sér, séu óhagkvæmar og aðallega fyrir þá sem selt hafa kvóta sína.  

Þrenn þessara samtaka skila sameiginlegri umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis, þar segir m.a. um strandveiðar:
Samtökin mótmæla allri mismunun sem felst í frumvarpinu hvað varðar strandveiðar, byggðakvóta og línuívilnun.  Samtökin hafa ítrekað lýst þeirri afstöðu að hætta eigi strandveiðum og fella aflamark, sem tekið hefur verið af öðrum og ráðstafað til þessara veiða, undir aflahlutdeildarkerfið“.  
Síðar þetta:
Þá stingur það sérstaklega í augun að margir sem nú stunda strandveiðar seldu aflahlutdeild til þeirra sem nú þurfa að þola skerðingu vegna strandveiðanna“.  


Og áfram...

Kafla umsagnarinnar um strandveiðar lýkur með eftirfarandi:
„Strandveiðar fela í sér sóun verðmæta, en í útgefnu hefti Hagstofunnar Hagur veiða og vinnslu fyrir árið 2011 kemur fram að tap af strandveiðum nam 219 milljónum króna á árinu 2011.
Strandveiðar hafa ekki styrkt byggð eða treyst atvinnu í sjávarbyggðum.  Mörg hundruð bátar eru gerðir út í skamman tíma til að sækja fisk sem auðveldlega mætti sækja með skipum sem gerð eru út í afla- og krókaaflmarkskerfunum.  Fiskvinnslufyrirtæki þurfa hráefni allt árið, en strandveiðar geta ekki stuðlað að öruggum eða arðbærum rekstri vegna þess hve skamman tíma þær standa.  Þá er aðstaða til meðferðar afla misjöfn um borð í skipum sem stunda strandveiðar og sá tími óheppilegur með tilliti til markaðar, vinnslunnar, sumarleyfa og fleira.  Jafnframt er sú veiðislóð sem þeir stunda ekki til þess fallin að skapa mest verðmæti.  Reynslan hefur reyndar sýnt að í mörgum tilvikum eru gæði hráefnis sem þau bera að landi ekki sem skyldi“.


Og líka ASÍ

Svo mörg voru þau orð í sameiginlegri umsögn Samtaka fiskvinnslustöðva, Samtaka atvinnulífsins og Landssambands íslenskra útvegsmanna. 

Alþýðusamband Íslands er fjórðu hagsmunasamtökin sem hér er minnst á.  Í umsögn þess segir þetta um strandveiðar:
„Gert er ráð fyrir að áfram verði stundaðar strandveiðar með sama hætti og áður.  Þessar veiðar eru óhagkvæmar og rökin að baki þeim eru orðin enn veikari eftir að hluta aflamarks verður ráðstafað í gegnum kvótaþing.  ASÍ leggur til að strandveiðipottur í núverandi mynd verði aflagður og sú aflahlutdeild sem sett hefur verið í strandveiðipottinn verði ráðstafað í gegnum kvótaþing“.


Annað hljóð á Alþingi

Það sem hér hefur verið ritað er ætlað að vekja menn til umhugsunar um að veruleg andstaða er við strandveiðar og í raun aðeins örfáar umsagnir um frumvarp um stjórn fiskveiða þeim meðmæltar.  Af þessum sökum ber að fagna því sérstaklega að meirihluti alþingismanna er sammála Landssambandi smábátaeigenda um að strandveiðar eigi að festa í sessi.


Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda. 
1 Athugasemdir

Góðan dag allir,

Ég vil byrja á að þakka þér fyrir Örn að senda ávallt fréttabréfin í tölvupósti.

Það er deginum ljósara að það eru stór samtök sem eru á móti strandveiðum. Mikil auglýsing þeirra á að strandveiðar séu slæmar (viðtöl og blaðagreinar) smita út frá sér því fólk á það til að grípa sögur og "staðreyndir" í lausu lofti án þess að kynna sér hina hliðina á peningnum.
Er allur línu og netafiskur æðislegt hráefni? 50t hal sem að kemst ekki niður í móttöku á skipi því hún er enn full frá fyrra hali og svo hennt í stíu.
En ég ætla nú ekki að ræða það heldur bara taka sjálfan mig sem dæmi, ég keypti litla trétrillu með engum búnaði á rúma milljón. negldi hana upp sjálfur, málaði og setti í tæki.
Fyrsta sumarið (svæði a grundarfjörður) vorum við 2 á þar sem ég var enn ekki kominn með réttindin. og skökuðum við með handfærum og höfðum eina tölvurúllu. Réttist úr kútnum við veiðarnar þegar á leið sumar og eftir sumarið hafði ég fiskað fyrir bátnum og búnaði, launum handa mér og einum öðrum í 4 mánuði. Ef einhver ætlar að skjóta á mig kostnaði við olíu þá er ég með 20hp Bukh og dugga þetta bara í rólegheitum á bátnum mínum sem heitir Snöggur. Ég varð alls ekki ríkur enda er það ekki málið. Sumarið eftir fiskaðist eilítið minna en þá var ég einn á nema 1 mánuð. Þá voru komnar 3 tölvurúllur. Og núna stend ég í breytingum á bátnum og upptekt á vél og hlakka mikið til sumarsins. Tilfinningin er ólýsanleg að vera úti á sjó og vera að draga fisk á sínum eigin bát. Einn með sjálfum sér. Það eru þónokkrir hér í grundarfirði sem að hafa ekki verið með trillu og geta nú róið þökk sé strandveiðunum. Þetta eru allskostar ekki allt fyrrverandi kvótakóngar eða menn með bunch af money. Og að lokum, takk Steingrímur og Jón

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...