Öldungadýrkun Hafrannsóknastofnunar - Landssamband smábátaeigenda

Öldungadýrkun Hafrannsóknastofnunar


Hinn 24. apríl sl birtist eftirfarandi grein í Fiskifréttum, eftir formann LS, Arthur Bogason, undir fyrirsögninni „Öldungadýrkun Hafrannsóknastofnunar“:

Fyrir fáeinum dögum barst sú frétt frá Raufarhöfn að veiðst hefði 41,5 kg þorskhrygna. Hrognasekkurinn vó heil 8,5 kg. Tröllskessan hefur ekki verið aldursgreind, en ekki er ólíklegt að hún sé u.þ.b. 14 ára gömul.

Lamb að hausti, hálfs árs gamalt, er u.þ.b. 40 kg rétt fyrir slátrun. Svo skemmtilega vill til að kjötnýtingarhlutfall er 37-45%, sem er svipað og flakanýting þorsks.

Líffræðilegur orkukostnaður

Ástæðan fyrir því að ég tíni þetta til er sú að við lifum í veröld sem gerir sífellt meiri kröfur um orkusparnað á öllum sviðum. Framangreindur samanburður bendir hinsvegar ekki til þess að hugsunin hafi náð inn í vísindaheiminn, hvað varðar fiskifræðina, a.m.k. þar virðist öldrunardýrkunin allsráðandi.

Segjum sem svo að Íslendingar ákveði að veiða 200 þúsund tonn af þorski á ári. Til að einfalda þá hugsun sem hér er reynt að færa í letur set ég fram eftirfarandi dæmi til samanburðar. Annars vegar hinn líffræðilega orkukostnað við að veiða þorskinn fjögurra ára og hinsvegar 14 ára. Síðan er hægt að bera þetta saman við að slátra lömbum eða rollum.

Tvö dæmi

Til að „búa til“ þessi 200 þúsund tonn af fjögurra ára þorski þarf að lágmarki 880 þúsund tonn af fæðu á ári. Að lágmarki, vegna þess að ekki eru teknir með í reikninginn þeir fiskar sem náttúran tekur til sín, auk þess líffræðilega kostnaðar sem fer í að viðhalda stærð stofnsins í heild.

Ákveði Íslendingar hins vegar að veiða 200 þúsund tonn af 14 ára þorski, þarf að lágmarki 3 milljónir tonna af fæðu á ári til verksins. Í þessu dæmi er ekki heldur tekið tillit til annarra þátta. Það blasir við að sá kostnaður í síðara dæminu er svo stjarnfræðilegur að best er að leggja hann til hliðar.

Það er ekki í vegi að minna á að markmiðið með fiskveiðistjórnunarkerfinu var að jafnstöðuafli þorsks á Íslandsmiðum yrði 350 þúsund tonn.  Ef veiða ætti samkvæmt seinna dæminu (14 ára) er árleg fæðuþörf orðin 4,5 milljónir tonna.

Rökrétt aðferðarfræði sauðfjárbóndans

Íslensku lömbin fæðast inn í vorið. Langflest þeirra eru leidd til slátrunar einungis hálfu ári síðar, því ella yrði húsnæðis- og fóðurkostnaður bóndans óviðráðanlegur á skömmum tíma. Slíkar takmarkanir eru að finna alls staðar í náttúrunni, þó varla með jafn augljósum hætti og í tilfelli sauðfjárbóndans.

Engum dettur í hug að vefengja aðferðafræði bóndans. Hún er einföld og rökrétt, byggð á aldalangri reynslu sem hefur leitt til þess að náttúrulegur dánarstuðull sauðkindarinnar er í algeru lágmarki.

Botnlaus sóun

Bændurnir á Hafrannsóknastofnun hafna búvísindum hins íslenska bónda. Þeir hafa valið að beita naumt skömmtuðum aflareglum í skjóli meintrar varúðar. Þessi búfræðigrein þeirra hefur fyrir vikið sjálfvirkan innbyggðan hvata til botnlausrar sóunar á lífrænni orku.

Raufarhafnarþorskurinn er gott dæmi um þessa búskaparhætti. Að öllum líkindum hefur þessi risahrygna gamsað í sig á bilinu 500-1000 kg af hinum ýmsu sjávarlífverum.

Er ekki löngu tímabært að fiskifræðingar hætti að leita leiða til að einfalda hlutverk sitt með marklausum aflareglum og fari að aðlaga þekkingu sína að heilbrigðri skynsemi. Er ekki líka kominn tími til að Hafrannsóknastofnun átti sig á því hvers konar glannaskapur það er að ætla að halda áfram sömu braut í búrekstri þorskstofnsins?

Og síðast en ekki síst: er ekki tími til kominn að stofnunin horfist í augu við þá staðreynd að öldrunardýrkun í lífríkinu almennt getur aðeins leitt til þess að færri einstaklingar fái þrifist“.

Screen Shot 2013-05-06 at 2.09.19 PM.png

Þorskhrygna uppá 41,5 kg.  Yrði sá bóndi settur á stall sem reyndi að treina lífið í skjátunum sem allra lengst?  Varla, en þesskonar búvísindi liggja að baki kæti Hafró yfir tröllafiskum eins og þessum. 

1 Athugasemdir

það eru ekki margir kaupendur sem hafa áhuga á svona drellum. sjáðu hvernig þróunin hefur verið í Barentshafinu undanfarinn áratug, eða frá því að Hafró sagði að búið væri að veiða síðasta þorskinn í Barenshafinu þegar Rússar voru farnir að flokka þorsk niður í 300-5oo gramma stærð og mesta magnið var í 500-1000g þorski.
nú er uppistaðan i afla frystitogaranna 2-3 kg flottur þorskur næst mest af 1-2 kg og svo slatti af stærri fiski allt að 6 kg. Milljón tonna veiðikvóti þetta árið. Hvað gerðist þarna?

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...