Stærðarmörk krókaaflamarksbáta - Landssamband smábátaeigenda

Stærðarmörk krókaaflamarksbátaFrumvarp, Sigurðar Inga Jóhannssonar sjávarútvegs- landbúnaðar- og umhverfisráðherra, um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða er aftur komið til meðferðar hjá atvinnuveganefnd.   
Meiri hluti nefndarinnar samþykkti frumvarpið ekki óbreytt.  Afstaða hans verður að teljast frekar óvenjuleg þar sem í hlut á stjórnarfrumvarp.

Breytingartillögur meirihlutans lúta annars vegar að stærðarmörkum krókaaflamarksbáta og hins vegar að upptöku sérstaks byggðakvóta til viðbótar þeim sem nú er. 

Vilja stærri krókaaflamarksbáta
Í frumvarpi ráðherra var kveðið á um að krókaflamarksbátar yrðu að mestri lengd 15 m og 20 brúttótonn að stærð þar sem allt yrði mælt nema auðleysanlegir hlutir.  Eins og fram kemur í athugasemdum við frumvarp ráðherra var við undirbúning þess haft samráð við innanríkisráðuneytið, Landssamband smábátaeigenda og Siglingastofnun.  Þá kemur þar einnig fram að við undirbúning frunvarpsins hafi komið fram: 

„andstæð sjónarmið sem leitast hefur verið við að sætta. Annars vegar eru sjónarmið heildarsamtakanna Landssambands smábátaeigenda sem hafa verið eindregið andsnúin breytingum á reglum um hámarksstærðir krókaaflamarksbáta með þeim rökum að með því væri gengið gegn þeirri sátt sem náðist um stærð þeirra á Alþingi vorið 2002. Hins vegar eru sjónarmið sem einkum gætir hjá eigendum stærstu línubátana sem hafa beitningarvélar um borð sem þrengt geta að annarri vinnuaðstöðu. Þeir hafa eindregið óskað eftir því að hámarksstærð bátanna verði aukin, en hægast er um þetta að vísa til umsagna sem bárust atvinnuveganefnd við meðferð sambærilegs frumvarps á 141. löggjafarþingi 2012-2013 (þingskjal 1133 - 447. mál). Með ákvæðum 1. gr. frumvarpsins er leitast við að koma til móts við sjónarmið þessara aðila, án þess að raska hámarksstærðum krókaaflamarksbáta að mun“. 

Þrátt fyrir framanritað féllst atvinnuveganefnd ekki á tillögu ráðherra og lagði til að stærðarmörkin yrðu 30 brúttótonn, þar sem stærðarmælt yrði með sama hætti og verið hefur.  
Breytingatillaga nefndarinnar mun þýða verulega stækkun miðað við upphaflegt ákvæði í frumvarpinu.


Byggðastofnunarbyggðakvóti
Auk þess að gera breytingar á stærðarmörkum samþykkti nefndin að setja ákvæði í lögin um byggðastofnunarbyggðakvóta.  Þeim veiðiheimildum verður úthlutað af Byggðastofnun og koma til viðbótar þeim byggðakvóta sem nú er.   Alls verða 1.800 þorskígildi (þorskur, ýsa, ufsi, steinbítur) í þessum potti sem Byggðastofnun ráðstafar úr næstu fimm fiskveiðiárin - 2013/2014 til og með 2017/2018.

Við 2. umræðu frumvarpsins voru breytingartillögur meirihlutans samþykktar og ákveðið að vísa málinu aftur til atvinnuveganefndar.  Nefndin hefur það nú til skoðunar áður en það verður tekið til 3. umræðu.  Þá mun nefndin einnig fjalla um álit minni hluta nefndarinnar.


Sjá nánar álit minni og meiri hluta atvinnuveganefnda
:
 


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...