Óþolandi hálfvelgja - Landssamband smábátaeigenda

Óþolandi hálfvelgja


í síðustu viku birtist í Fiskifréttum skoðunargrein eftir Arthur Bogason, formann LS undir fyrirsögninni „Óþolandi hálfvelgja“. Í henni lýsir hann skoðun sinni á því sem honum finnst linkulegur stuðningur íslenskra stjórnvalda við Færeyinga í ströggli þeirra síðarnefndu við Evrópusambandið. 
Greinin í heild er svohljóðandi:

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að eitt það besta sem gerst hefur í samskiptum þjóða er tilkoma Evrópusambandsins. Hvernig sem á það er litið hefur Evrópusambandið reynst friðarstillir og ekki veitir af í þessum stríðshrjáða heimi.

Þessi staðreynd hefur ekkert með það að gera hvort Ísland eigi að binda þar trúss sitt. Það er allt annað mál. Sjálfur hef ég verið hálfgerður geðklofi í þessu: Vegna sjávarútvegsins tel ég okkur eiga þangað lítið erindi, en varðandi ýmis önnur grundvallarmál finnst mér viðfangasefnið öllu snúnara.

Atburðir síðustu daga hafa reyndar skýrt ýmislegt. Vaskleg framganga Evrópusambandsins gagnvart Færeyingum í síldveiðimálinu er til slíkrar fyrirmyndar að vart gerist betra. Eða hitt þó heldur. Vinnubrögðin sem ESB viðhefur eru því til ævarandi skammar.

Skömm danskra

Ekki eru samtök danskra sjávarútvegsfyrirtækja né sjómanna hótinu skárri.

Þar á bæ slá menn í klárinn og vilja ganga miklu lengra í refsingum gagnvart starfsbræðrum sínum, færeyskum. Eigi danskurinn sömu skömmina. Sá orðrómur hefur lengi verið á kreiki - og vart að ástæðulausu - að svarti fiskmarkaðurinn úr nær- og innhöfum við Danmörku og aðliggjandi lönd sé jafnvel helmingur hins raunverulega markaðar.  Væri ekki nær fyrir Danina að byrja á tiltekt í flatneskjunni heima fyrir?

Mér er gróflega misboðið

Kveikjan að þessum skrifum mínum er þó ekkert af framangreindu. Hún er sú staðreynd að íslensk stjórnvöld hafa heykst á því að lýsa stuðningi við Færeyinga - einu þjóð veraldar sem ítrekað hefur sýnt og sannað að hún er vinaþjóð í raun. Mér sem íslenskum ríkisborgara er gróflega misboðið.

Ég hef verið að reyna að skilja hvernig á þessu getur staðið.  Er ungum aldri ráðamanna og hugsanlegri sögulegri fákunnáttu (sem er í sjálfu sér engin dauðasynd) um samskipti okkar og Færeyinga í gegnum tíðina um að kenna? 

Varla. Árið 2008 bræddi íslenska hagkerfið svo hraustlega úr sér að allur heimurinn man það enn. Hverjir buðu fyrstir allra fram aðstoð sína? Jú, litla eyþjóðin, 50 þúsund manna fiskveiðisamfélagið, snaraði rúmum 6 milljörðum á borðið, ígildi þess að Íslendingar réttu þeim 35 milljarða við svipað tækifæri - miðað við höfðatölur.  

Minni mitt er kannski ekki það besta norðan Alpafjalla, en ég man ekki betur en að Færeyingar færu svo gott sem á hausinn fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi.  Þjóðarframleiðslan dróst saman um þriðjung og fólksflótti brast á sem enn markar færeyskt samfélag.  Réttum við frændum okkar hliðstæða hjálparhönd?   Það held ég ekki og stundum man ég óþægilega hluti betur en þægilega: einhverjum fannst viðeigandi á þessu tímabili að leggja til að taka af þeim þær litlu veiðiheimildir sem Færeyingar hafa innan íslensku lögsögunnar.  Það var í eitt af þessum skiptum sem ég hef skammast mín fyrir að vera Íslendingur.

Samúð í verki

Ég hef verið svo lánsamur í gegnum tíðina að hafa kynnst fjölda Færeyinga. Upp til hópa eru þeir einstaklega elskulegt og heiðarlegt fólk. Vitaskuld eru þar svartir sauðir og færeyskt samfélag er ekki gallalaust frekar en önnur.

Það sem einkennir Færeyinga sterkar en flest og kannski allt annað er hversu auðvelt þeir eiga með að sýna samúð í verki.  Íslendingar hafa margsinnis notið góðs þar af.  Þegar náttúruhamfarir hafa dunið yfir hefur ekki þurft að sökum að spyrja og þegar Íslendingar börðust fyrir útfærslu landhelginnar voru það færeyskar húsmæður sem settust á bryggjupollana í Færeyjum þegar Tjallinn ætlaði að nota eyjarnar sem löndunarhöfn í stríðinu við Íslendinga.  Það hefur aldrei vafist fyrir Færeyingum að styðja við bakið á okkur.

Nú þurfa þeir á stuðningi að halda. Íslensk stjórnvöld sýna hinsvegar óþolandi hálfvelgju, framkomu sem þeir eiga síst skilið.

Hvers vegna?

Ég ætla að botna þetta með því að geta mér til um það hvers vegna staðan er þessi:

Svo vill til að Færeyingar lýstu því nýverið og einhliða yfir að þeir ætli sér að veiða hærra hlutfall af síldarkvótanum en undanfarin ár. Ekki 5%, heldur 17%.

Á þessa ákvörðun er litið með mikilli vanþóknun af ónefndum íslenskum hagsmunasamtökum í útgerð - og væntanlega íslenskum stjórnvöldum.

Þeim ferst: Það er ekki ýkja langt síðan íslenski togaraflotinn hélt í ránsleiðangra upp í Barentshaf í þorskstofninn þar og stutt er síðan íslensk stjórnvöld ákváðu einhliða að veiða milli 15-20% af makrílkvótanum í stað ekki neins áður fyrr“.    


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...