Óleyst ýsuvandræði á grunnslóð - Landssamband smábátaeigenda

Óleyst ýsuvandræði á grunnslóð
Hinn 26. september sl. birtist í Fiskifréttum grein eftir Örn Pálsson framkvæmdastjóra LS undir fyrirsögninni „Óleyst ýsuvandræði á grunnslóð“ - misræmið í kvótaúthlutun þorsks og ýsu.„Enn eitt fiskveiðiárið er hafið þar sem ýsugengd á grunnslóð er langt frá því að vera í takt við útgefinn heildarafla í tegundinni. Á sama tíma og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar í ýsu er 44% undir 10 ára meðaltali er þorskvótinn 23% ofan við sitt meðaltal.   Þeir smábátaeigendur sem ég hef rætt eru á einu máli um að þessi hlutföll og þar með samsetning leyfilegs afla sé ekki í takt við það sem þeir upplifa á fiskimiðunum. Algengt er að ýsa sem meðafli við þorskveiðar sé 40%. Allir sjá að þegar ráðgjöf í ýsu er aðeins 18% í hlutfallið við þorsk eru vandræðin augljós. Benda má á að meðaltal sl. tíu ára er 41%.


 

Vandinn mestur á grunnslóð


Mestur er vandi línubáta sem róa á grunnslóð. Reynt er að fara lengra út og komast þannig í hærra hlutfall af þorski en veður kemur oft í veg fyrir slíkt og þá er voðinn vís þegar veiðiheimildir í ýsu duga ekki til.  Á miðum þar sem menn sáu ekki ýsu fyrir nokkrum árum er allt sneisafullt af henni. Húnaflóinn er gott dæmi um slíkt.Kvótasetning aukategunda


Fiskveiðiárið sem hófst 1. september 2001 er fyrsta árið sem krókaaflamarksbáta glímdu við magntakmarkanir á ýsu.  Landssamband smábátaeigenda mótmælti kvótasetningu aukategundanna og benti á fjölmarga þætti máli sínu til stuðnings.  

Stórútgerðin hélt hins vegar öðru fram. Hún sagði krókakarla vera að stela frá þeim ýsunni. Nú væri nóg komið og það yrði að koma böndum á afla þeirra. 

Niðurstaða stjórnvalda varð sú að þorskaflahámarkið var afnumið og krókaaflamarkskerfið sett á.  Með því var frelsi til veiða hjá þeim bátum úr sögunni og kvóti kominn á þær tegundir sem þeir höfðu veitt.   Ráðgjöf Hafró 


En aftur að samsetningu veiðiheimildanna. Á fyrstu árum kvótasetningarinnar fylgdi ráðgjöf Hafró nokkuð upplifun sjómanna. Ýsukvótinn óx jafnt og þétt og náði hámarki fiskveiðiárið 2005/2006 þegar hann varð 105 þús. tonn.  Það ár ráðlagði stofnunin 196 þús. tonna veiði í þorski. 

En Adam var ekki lengi í paradís.  Togararallið og afli á veiðislóð togaranna gaf til kynna að stofnstærð færi minnkandi og Hafró taldi nauðsynlegt að draga úr afla. Þessar mælingar komu hins vegar ekki heim og saman við reynsluna á þeim veiðisvæðum sem krókaaflamarksbátar voru á.  Það varð jú vart við minna af ýsu, en það stóð mjög stutt og sl. þrjú fiskveiðiár fullyrða þeir sem stunda línuveiðar á grunnslóð að ýsan hafi verið í stöðugum vexti.Ívilnun á grunnslóð


Landssamband smábátaeigenda hefur óskað eftir að brugðist verði við þessum "vandræðum" með aukinni úthlutun. Ráðherrar hafa orðið við því en magnið ekki dugað til. Þá hefur LS einnig bent stjórnvöldum á að taka upp ívilnun við ýsuveiðar á grunnslóð. Þannig mætti marka ákveðin svæði þar sem ýsa veidd þar teldist ekki að fullu til kvóta. Þrátt fyrir góðan vilja fyrrum ráðherra strandaði slík aðgerð á lögum um stjórn fiskveiða, þau heimila ekki slíkt inngrip.  
Ný veiðireynsla


En allt er þá er þrennt er, sem byggist á því að ný veiðireynsla hefur orðið til í ýsu. Eins og fram kom í Fiskifréttum 12. september sl. veiddu krókaaflamarksbátar rúm 26% ýsuaflans á sl. fiskveiðiári eða alls 9.867 tonn. Í töflu sem fylgdi með fréttinni var afli þeirra tilgreindur sl. 8 fiskveiðiár. Þar kemur m.a. fram að hlutdeild þeirra hefur öll árin að undanskyldu fiskveiðiárinu 2007/2008 verið yfir 20% og sl. þrjú ár hefur hún verið rúmur fjórðungur. Þessar tölur eru því athyglisverðari þegar horft er til 15% hlutdeildar þeirra.
Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

  

Við endurskoðun laga um stjórn fiskveiða sem boðuð hefur verið verða þessar staðreyndir að koma til skoðunar. LS hefur í langan tíma gert kröfu um að línuívilnun nái til allra dagróðrabáta, einnig að byggðakvóti nái eingöngu til dagróðrabáta. Með því að tekið yrði tillit til þessara krafna væri hægt að auka aðgengi krókaaflamarksbáta að ýsu til móts við hlutdeild þeirra í heildarveiði undanfarinna ára. Það gengur ekki lengur að það sé rándýrt að veiða þorskinn þegar nóg er af honum.“Höfundur er framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...