Strandveiðar - Holl lesning fyrir ráðherra - Landssamband smábátaeigenda

Strandveiðar - Holl lesning fyrir ráðherraStrandveiðar 2. grein af 3, eftir Gísla Gunnar Marteinsson

Þessi grein er framhald af samnefndri grein sem birtist hér á heimasíðunni 16. október sl.  Hérna birtist aðeins það sem undirritaður lagði fyrir aðalfund Snæfells, sem er eitt af svæðisfélögum Landssambands smábátaeigenda. Undirritaður taldi sig hafa lausnir á flestum göllum strandveiðikerfisins og að þessar tillögur myndu fara vel í fundinn.


Tillaga um breytingar á fyrirkomulagi strandveiða.

 • Fundurinn lýsir yfir stuðningi við tilveru strandveiða en telur að gera megi miklu betur. 
 • Fundurinn telur að í núverandi fyrirkomulagi sé innbyggð mikil sóun verðmæta og ónauðsynlegt smáfiskadráp.
Gísli Gunnar.jpg

Helstu kostir kerfisins eru eftirfarandi:

 • Aukið fiskframboð yfir sumartímann.
 • Svokölluð nýliðun. 
 • Frelsi íslenskra ríkisborgara til að veiða og selja fisk.

Ókostirnir eru því miður miklu fleiri.  Þeir helstu eru eftirfarandi:
 • Óþarfa smáfiskadráp vegna þeirrar pressu sem skapast til að róa, bara þangað sem kannski er skjól.
 • Tímamörk sem gera hæggengum bátum erfitt að komast, hugsanlega, í ætan fisk. Tímamörkin eru reyndar, frá öllum hliðum, fáránleg 
 • Gríðarleg olíueyðsla per/kg hjá þeim sem róa lengra undir þeirri pressu að ætla að ná ,,skammti“
 • Pressa á smærri báta til að róa í brælu þegar einhver á öllu svæðinu hefur farið af stað. Jafnvel þótt þar sé ólíkt betra veður. Svokölluð ,,marine traffic pressure“

Fundurinn vill því, í ljósi framkominna staðreynda, álykta eftirfarandi:

Eitthvert frelsi til handfæraveiða er nauðsynlegt í lögum um stjórn fiskveiða. Það er t.d. sérstaklega æskilegt að fólk sem starfað hefur við sjávarsíðuna geti haft valkosti þegar það hægir á í vinnu.

Fundurinn vill því að það hlutfall sem ætluð er strandveiðum í heildaraflamarki haldi sér óbreytt.
 
Fundurinn vill sjá strandveiðunum stjórnað á eftirfarandi hátt:

 1. Landið allt er eitt svæði. Aðeins einn pottur fyrir alla sem sækja um strandveiðileyfi.
 2. Pottinum er skipt niður á 4 mánuði líkt og verið hefur. Hlutföllin gætu  t.d. verið maí 25%, júní 30%, júlí 30% og ágúst 15%.
 3. Sótt er um þátttöku með góðum fyrirvara í hvern mánuð fyrir sig. Hámarks heimildin ræðst þá af aflaheimildum þess mánaðar, deilt með bátafjöldanum.
 4. Bátnum ber skylda til að landa því magni sem hann sækir um með ca. 200 kg. vikmörkum annars verður báturinn ekki hæfur til að sækja um þennan sama mánuð að ári. Þetta leiðir til þess að ekki er nauðsynlegt að sækja um ,,hámark“. Menn sníða sér þá stakk eftir vexti.
 5. Bátur getur, að lokinni löndunarskyldu hvers mánaðar, skráð sig frá strandveiðum og getur þá sinnt öðrum verkefnum en fer þá ekki til strandveiða aftur það fiskveiðiár.
 6. Sömu útgerð er heimilt að gera út fleiri en einn bát á einni kennitölu og skipstjóri þarf eingöngu að hafa tilskilin réttindi og vera lögskráður á bátinn. Eignaraðild er ekki nauðsynleg.
 7. Innifalin í veiðiheimild verður svokölluð ,,hafróhemild“ v.s. afli upp á 5%
 8. Tímamörk í róðri verða sólarhringur og róa má alla daga.

Fundurinn telur að ef þessar breytingar verði gerðar á strandveiðum þá muni þær skila eftirfarandi:

  • Jafnara fiskframboði.
  • Vænni fiski og þ.a.l. hærra fiskverði.
  • Sennilega 50% lægri olíueyðslu per/kg.
  • Smá vott af atvinnusköpun.
  • Pressan á róðra hverfur og þá er hægt að velja veður til róðra.
  • Smærri bátarnir hafa meiri möguleika og ,,rómantíkin“ eykst.

Flutningsmaður tillögunnar hvetur fundarmenn til að sjá skynsemina í þessum tillögum og samþykkja þær.

Svo mörg voru þau orð, en hvernig þetta lagðist í fundinn kemur í ljós í greininni sem birtist hér á síðunni á morgun.


Gísli Gunnar Marteinsson  sjómaður
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...