Deilt á Fiskistofu - Landssamband smábátaeigenda

Deilt á Fiskistofu
Starfsemi Fiskistofu var til umræðu á Alþingi í gær.  Málshefjandi htv. alþingismaður Ásmundur Friðriksson (D), fjallaði um stofnunina og vinnubrögð hennar.  ÁF deildi hart á stofuna og sagði starfsaðferðir hennar vera með þeim hætti að undrun sætti.  „Ekki eru fengnar heimildir til húsleitar á heimilum, vinnustöðum, skrifstofum og um borð í fiskiskipum.“
Í lok ræðu sinnar lagði ÁF áherslu á að „opinberar stofnanir með almannavald í höndum verða að ganga fram af hógværð og halda í heiðri að enginn sé sekur fyrr en sekt er sönnuð.  Eftirlitsstofnanir eiga að vinna með fyrirtækjum, ekki á móti þeim“, sagði Ásmundur.


Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráherra tók undir með málshefjanda að mikilvægt sé að skoða sérstaklega rannsóknarheimildir og úrskurðarvald Fiskistofu.  Ráðherra var sammála ÁF að málsmeðferðartími (innskot LS:  alls 10 ár á 4 fyrirtæki ) „væri langur, alltof langur, sérstaklega í ljósi þess að rannsókn á fyrirtækjunum getur haft mjög neikvæð áhrif á starfsumhverfi þeirra“, sagði SIJ. 
Í lok ræðu sinnar upplýsti ráðherra þingið um að reglur um vigtun sjávarafla væru til endurskoðunar og væru á þingmálalista þessa vorþings.  Þar væri stefnt að því að einfalda vigtarreglur þannig að ferlið til endanlegrar vigtunar yrði styttra og viðkomustaðir færri.


Þrír aðrir þingmenn tóku þátt í umræðunni:  Kristján Möller (S), Lilja Rafney Magnúsdóttir (V), Willum Þórsson (B) og Brynjar Níelsson (D).
Fiskistofa sat ekki þegjandi yfir þessari umræðu eins og lesa má á heimasíðu stofnunarinnar:  „Í tilefni af opinberri umræðu og fréttaflutningi vill Fiskistofa koma upplýsingum á framfæri um eftirlitshlutverk stofnunarinnar með vigtun sjávarafla og hvernig gagna er aflað og úrskurðað í svonefndum bakreikningsmálum“.   


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...