Þrengt að síldveiðum smábáta - Landssamband smábátaeigenda

Þrengt að síldveiðum smábáta
Ráðherra hefur undirritað reglugerð sem afturkallar heimild Fiskistofu til að úthluta smábátum síld til veiða innan brúar í Kolgrafafirði.  


Fram kemur á heimasíðu ANR að Hafrannsóknastofnun telji ekki lengur þörf á sérstökum aðgerðum gagnvart þeim hluta síldarstofnsins sem hefst við innan brúar í Kolgrafafirði.  Af þeim sökum skuli veiðar úr stofninum lúta almennri fiskveiðistjórnun þar sem tekið er mið af ráðgjöf.  Ákvörðunin tók gildi á gamlársdag.


Athygli vekur einkennilegt viðhorf Hafrannsóknastofnunar til síldveiða smábáta innan brúar sem fram kemur í frétt ANR.  Þær falla nú undir „óþarfa skark í stofninum“ sem „veldur því að síldin þarf sífellt að eyða meiri orku en ella sem getur haft áhrif á möguleika hennar að lifa af veturinn“.   
Bent skal á að rétt um mánuður er liðinn frá því smábátar voru kallaðir til aðstoðar af stjórnvöldum til að bjarga verðmætum þegar Hafrannsóknastofnun taldi umtalsverðar líkur á að ákveðinn hluti síldarinnar væri dauðvona.


Landssamband smábátaeigenda vinnur nú að gagna- og upplýsingaöflun varðandi framhald síldveiða smábáta í Breiðafirði.  Verði niðurstaðan jákvæð mun félagið krefjast þess að smábátar fái að nýta það sem eftir er af kvótanum sem þeir höfðu til veiða innan brúar á almennu veiðisvæði á Breiðafirði. 
 

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...