Fundur FAO og félagasamtaka um smábátaveiðar - Landssamband smábátaeigenda

Fundur FAO og félagasamtaka um smábátaveiðar
Þessa vikuna stendur yfir í höfuðstöðvum FAO í Róm síðasti samráðsfundur aðildarþjóða FAO og félagasamtaka smábáta- og strandveiða sem og fiskverkafólks, um alþjóðalegar, tæknilegar viðmiðunarreglur um sjálfbærar smábátaveiðar.


Þessar viðmiðunarreglur fara að loknum þessum fundi fyrir COFI fund FAO, en COFI (Committee on Fisheries) er stærsti fundur sem haldinn er í heiminum um málefni sjávarútvegsins. Sá fundur, sá 31. í röðinni, verður í byrjun júní á þessu ári.


Það skiptir smábátaeigendur hvarvetna í heiminum miklu máli að vel takist til með lokatexta þessara viðmiðunarreglna.  Þó áherlsan sé vissulega á þau svæði í heiminum sem verst eru sett í þessum málum eiga reglurnar við smábátaveiðar hvar sem er á jarðarkringlunni.


Þegar COFI fundurinn í júní hefur farið í gegnum textann sem nú er í lokaundirbúningi, verður hann að öllum líkindum samþykktur og í framhaldi splæstur aftan við Siðareglur FAO um ábyrgar fiskveiðar.


Á örfáum árum hefur víðsvegar orðið gríðarleg viðhorfsbreyting og vitundarvakning stjórnvalda og almennings gagnvart hlutverki smábátaveiða í öflun fæðu og ábyrgri nýtingu fiskimiða. FAO fer ekki varhluta af þessum breytingum því ekki er liðinn nema áratugur frá því að málefni smábátaveiðanna komst varla á dagskrá COFI fundanna. Nú er öldin önnur.


Fyrstu drög þessara viðmiðunarreglna voru lögð fyrir COFI árið 2012, sem þá samþykkti að málinu yrði haldið áfram. WFF (Alþjóðasamtök strandveiðimanna) hafa frá upphafi komið að málinu og í Róm eru nú 13 fulltrúar samtakanna þátttakendur í fundarhöldunum.  


Fulltrúi Landssambands smábátaeigenda er Arthur Bogason.
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...