Er markaðsstarf í þorski verulega ábótavant? - Landssamband smábátaeigenda

Er markaðsstarf í þorski verulega ábótavant?
Afurðarverð í þorski nánast óbreytt í áratug

Á sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var dagana 21. og 22. nóvember sl. flutti Kristján Hjaltason sölu- og markaðsstjóri Ocean Trawlers Europe erindi sem hann nefndi:  „Hefur verðmæti afla aukist?“
Erindið var afar fróðlegt og upplýsandi.  Meðal þess var umfjöllun um þróun afurðarverðs nokkurra fisktegunda.  Það var ekki laust við að maður kipptist við að heyra um þróun afurðaverðs á þorski þar sem nánast engin hækkun hefði orðið á 10 ára tímabili 2003 - 2012.  Reiknað á föstu gengi 2012 var aflinn 207 þúsund tonn, útflutningsverðmæti 83 milljarðar sem skilar 402 kr/kg, samsvarandi tala 2003 var 388 kr/kg sem er 3,5% hækkun.   

Tíðindin fundust mér dapurleg, ekki síst í ljósi þess að hlutur þorskafurða er 30% af heildarútflutningsverðmæti sjávarafurða.   


Hærra greitt fyrir tilapíu en þorsk

Á ráðstefnunni var ekki síður áhugavert að hlýða á erindi Steindórs Sigurgeirssonar forstjóra og eiganda Nautilus Equity Holdings.  Hann fjallaði um tilapíu sem er langmikilvægasta eldistegundin á „hvítfiskmarkaðnum“ og gjarnan kölluð kjúklingur hafsins.  
Því hefur oft verið fleygt að ástæða þess að okkur gengur ekki betur á þorskmörkuðunum sé gríðarleg samkeppni við eldistegundir hvítfisks sem flæðir frá Kína þar sem hráefnisverðið sé aðeins brot af því sem það er hér.  Steindór upplýsti ráðstefnugesti að á því hefði orðið breyting.  Frá 2008 hefði verð hér farið lækkandi á meðan verð til bænda í Kína hefði vaxið og 2012 hefðu verðin verið þau sömu.  Á síðasta ári var verð til tilapíuræktenda í Kína hins vegar hærra en útgerðir fá hér fyrir þorskinn.  Það vakti sérstaka athygli að enginn munur væri orðinn á smásöluverði á tilapíu og þorski.  Með öðrum orðum, það hefur tekist að selja hvítfisk sem ræktaður er við misjafnar aðstæður á sama verði og þorsk sem veiddur er hér í Atlantshafinu.  Til samanburðar er verð á eldislaxi aðeins helmingur af því sem villtur er seldur á.


Víða potter brotinn

Í stórmörkuðum hér heima hef ég gjarnan þann háttinn á að gramsa í frystinum.  Sjá hvað er til sölu af fiski og hvernig hann er framreiddur fyrir viðskiptavininn.  Fyrir nokkrum dögum féllust mér gjörsamlega hendur í þessu áhugamáli mínu.  Fyrir utan að í nánast engum tilvika er greint frá því hvaðan fiskurinn kemur eru fráhrindandi áhrif slík að mann sundlar.  Myndin sem hér er sýnir hvernig gengið er um gullið okkar.  Gullið sem hver sjómaður vandar sig þvílíkt við að skila frá sér í sem bestu standi.  Það er engu líkara en hér hafi máltækinu „þetta er nógu gott í kjaftinn á þeim ……..“ verið beint til okkar.  Ég ætla rétt að vona að það sem sést á þessari mynd sé ekki boðið sem útflutningsvara.
Fiskur í frysti.jpg


Glæsileikinn uppmálaður

Það eru liðnir tveir áratugir frá því ég heimsótti stærsta fiskmarkað Evrópu - Rungis í París.  Ég minnist enn hversu bergnuminn ég var af frágangi margra fisktegunda og einnig hversu sum lönd skáru sig úr hvað glæsileika fisksins varðar.  Laxinn frá Noregi var einstakur þar sem hann lá í íshrönglinu með gullmedalíu festa í kjaftvikið.  Innfæddum hafði verið sleginn stæðan sem saman stóð af fimm kössum.   Hann gekk hróðugur út í sólskinið og það stirndi á medalíuna.  Markaðssetningin var á réttri leið.


Erum ekki enn í hópi þeirra bestu

Síðastliðið sumar var afar athyglisvert viðtal við Pál Gunnar Pálsson verkefnisstjóra hjá MATÍS.  Fyrirsögnin var:  „Af hverju er engin íslensk vara meðal þeirra bestu?“  Meðal annars er þar fjallað um árlegar viðurkenningar sem veittar eru á sjávarútvegssýningunni í Brussel fyrir nýjungar í ýmsum flokkum sjávarafurða.  Páll Gunnar hefur fylgst með keppninni í mörg ár.  „Hann segist ekki minnast þess að hafa séð íslenskt fyrirtæki staðsett á Íslandi tilnefnt til verðlauna, og má í ljósi þess velta því fyrir sér hvers vegna við komumst ekki á stall meðal þeirra bestu í nýsköpun og vöruþróun“.  Páll segir Íslendinga hafa „festst í hráefnisvinnslu fyrir erlenda stórkaupendur, sem nýta okkar hráefni til að framleiða eftirsóknarverðar neytendavörur þar sem uppruni fisksins er ekki lengur sýnilegur“.


Markaðsmenn - takið ykkur á

Grein þessari er ætlað að verða markaðsmönnum í sjávarútvegi hvatning til að gera betur.  Þeir hafa úrvalsvöru að bjóða, veiðar og veiðistjórnun vottaðar sem sjálfbærar og áratuga reynslu af góðum gæðum.  Það á að vera hægt að gera betur og verður að gera betur þannig að þorskur verði metinn af verðleikum á dýrustu mörkuðum veraldar.   Örn Pálsson framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda
 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...