Taugaspenna við veiðar og verð - Landssamband smábátaeigenda

Taugaspenna við veiðar og verð
Grásleppuveiðar fara afar rólega af stað.  Samkvæmt bráðabirgðatölum Fiskistofu var aðeins búið að landa 2 tonnum af hrognum og 106 tonnum af grásleppu 1. apríl sl.   Á sama tíma í fyrra var hrognatalan komin í 28 tonn og grásleppuaflinn 453 tonn.

Að sögn sjómanna segja tölurnar allt sem segja þarf, veiðarnar ganga illa, eru með því lélegasta sem sést hefur í upphafi grásleppuvertíðar.


Það sama er að segja um áhuga kaupenda.  Þrátt fyrir 40% verðlækkun á síðasta ári treysta þeir sér ekki til innkaupa nema á enn lægri verðum.  2013 var verð á óskorinni grásleppu gegnumgangandi 200 kr / kg, en nú er grásleppukörlum boðið verð á bilinu 150 - 160 krónur, sem losar 500 kr á kílóið fyrir blaut hrogn.

Hið lága verð og það hversu veiðarnar fara illa af stað hefur slegið á áhuga grásleppukarla í að hefja vertíð.   Frá Noregi berast þær fréttir að búið er að ákveða lágmarksverð.  Það er 4.700 Nkr. fyrir hverja tunnu og blaut hrogn eru ekki seld á lægra verði en 31,50 Nkr.   Verðin svara til 89 þúsunda fyrir tunnuna og 600 kr / kg fyrir hrognin.

Viðbrögð kaupenda við lágmarksverði í Noregi eru algjör doði, þeir segjast ekki munu kaupa á þessum verðum.  Þeir muni fá hrognin ódýrari frá Íslandi.Erfitt er að spá í hver þróunin verður á næstu dögum varðandi verðið.  Undirritaður telur að takist framleiðendum grásleppuhrognakavíars að knýja fram framangreinda verðlækkun muni það skaða markaðinn.  Undirboð muni sem aldrei fyrr blómstra á grásleppukavíarmarkaðinum, með ávísun á áframhaldandi kröfu um verðlækkanir sem getur vart endað með öðru en að veiðum verður sjálfhætt.  

Hér er því alvarleg þróun að eiga sér stað sem verður að stöðva.  Jafnt kavíarframleiðendur sem sjómenn þurfa að taka höndum saman og snúa henni við.  Ná þarf jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar, kannski mun náttúran sjá um það ef marka má veiðitölur, en það er einnig gert með því að óskað hefur verið eftir að hvert grásleppuleyfi gildi aðeins í 28 daga.   


Örn Pálsson
1 Athugasemdir

Það vantar nú að geta þess að það eru mun færri bátar farnir af stað í ár en í fyrra og tíðin í ár er klárlega verri fyrstu vikuna.
Varðandi verð og þess háttar geta sjómenn/eigendur sjálfum sér um kennt að hluta til, þeir hafa tekið kúrsinn með hrognakaupendum og vælt verðið niður með þeim.(því lík framistaða hjá þeim á fundinum á akureyri, ég var alveg við það að ganga úr þessu félagi, því líkur vælukór sem þar var)
Það sem er ekki að hjálpa til er að til eru hrogn frá því 2012 og 2013, ég veit þess dæmi að hrognakaupandi úti vill kaupa hrogn en heldur verðinu niðri af því að hann getur keypt gömul hrogn á 30-40 þús.
Þessi hrogn ætti að urða sem fyrst og aldrei ætti að bjóða hrogn frá fyrri árum til sölu á nýrri vertíð, Þessir hottintottar nota þessi hrogn til að keyra verðin niður.
Og ef menn ætla að fara að væla um það að það sé ekki markaður fyrir þessi hrogn þá ættu íslenskir hrognaverkendur að skipta um sölumenn því það er eitthvað stórkostlegt að ef önnur lönd geta selt meira magn af hrogn en við og á hærra verði en sagt er að íslendingar fá...
Þá er Þessum reiðilestri lokið í bili.

 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...