Flutningur veiðiheimilda heimilaður úr krókakerfi - Landssamband smábátaeigenda

Flutningur veiðiheimilda heimilaður úr krókakerfi
Ein af mörgum breytingartillögum atvinnuveganefndar Alþingis við frumvarp sjávarútvegsráðherra um „rækjuhlutdeild“ varðaði flutning veiðiheimilda úr krókaaflamarkskerfi yfir í aflamarkskerfið.  Alþingi samþykkti breytingartillöguna sem lög og tekur ákvæðið strax gildi.

Greinin bætist við 15. gr. laga um stjórn fiskveiða og orðast svo:

„Ráðherra getur þó heimilað með reglugerð flutning á aflamarki tiltekinna tegunda frá krókaaflamarksbátum til skipa sem hafa veiðileyfi með aflamark, enda séu skiptin jöfn í þorskígildum talið.“


Í nefndaráliti atvinnuveganefndar segir eftirfarandi um þetta atriði:

„Jafnframt leggur nefndin til breytingu á 8. mgr. 15. gr. laganna. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir því að aflamark megi flytja frá aflamarkskerfi til krókaaflamarkskerfis en ekki öfugt. Þetta fyrirkomulag getur valdið því að aflaheimildir séu vannýttar. Nefndin leggur til að ráðherra geti með reglugerð heimilað flutning á aflamarki tiltekinna tegunda frá krókaaflamarksbátum til skipa sem hafa veiðileyfi með aflamark enda séu skiptin jöfn í þorskígildum talið. 
Á árinu 2002 var ufsi settur í aflahlutdeild krókaaflamarksbáta. Síðan þá hafa veiðiheimildir á ufsa fallið niður ónýttar á hverju fiskveiðiári, allt frá 300 að 3.000 tonnum en að meðaltali um 1.300 tonn á hverju fiskveiðiári. Mögulegt er að skip í aflamarkskerfinu hefðu vilja og getu til að veiða þennan ufsa en heimild skortir til að flytja veiðiheimildir í aflamarkskerfið. Vannýttar heimildir afla því þjóðarbúinu ekki tekna. Á sama tímabili hafa að jafnaði 2.600 tonn af aflamarki í ýsu verið leigð árlega frá aflamarkskerfinu til krókaaflamarkskerfisins þar sem langvarandi skortur á ýsuheimildum hefur verið til staðar. Verði breytingartillaga nefndarinnar að lögum getur ráðherra leyft flutning á aflaheimildum í krókaaflamarki tiltekinna tegunda til aflamarkskerfisins enda séu skiptin jöfn talið í þorskígildum. Með þessu er stefnt að því að veiðiheimildir í krókaaflamarkskerfinu verði allar nýttar til veiða. Auk þess má leiða að því líkur að þessi möguleiki, á jöfnum skiptum milli krókaaflamarkskerfis og aflamarkskerfis á grundvelli þorskígilda, geti auðveldað flutning á ýsu frá aflamarkskerfi til krókaaflamarkskerfis. Hér hafa fyrst og fremst verið nefndar til sögunnar tegundirnar ýsa og ufsi. Heimildin getur átt við um aðrar tegundir en nefndin bendir á að reglugerð ráðherra gildir aðeins eitt fiskveiðiár í senn.“


Þar sem afgreiðsla atvinnuveganefndar á breytingartillögum sínum fór saman við 2. umræðu tóku fáir þingmenn til máls og ekki var velt upp öðru sjónarmiði en kom fram í nefndarálitinu.  Eins og áður er fram komið óskaði LS eftir fundi með atvinnuveganefnd milli 2. og 3. umræðu um breytingartillögur nefndarinnar.  Þeim tölvupósti var ekki svarað. 

Samþykkt aðalfundar Landssambands smábátaeigenda um málefnið sem hér er til umfjöllunar var eftirfarandi:

„Aðalfundur LS vill að krókaaflamarksútgerðum verði gert kleift að skipta á krókaaflamarki í ufsa fyrir aflamark í ýsu úr aflamarkskerfinu í gegnum skiptimarkað Fiskistofu.“


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...