Veiðigjöld - verður að vinna frumvarpið betur - Landssamband smábátaeigenda

Veiðigjöld - verður að vinna frumvarpið betur
Landssamband smábátaeigenda átti í dag fund með atvinnuveganefnd Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld.  Á fundinum skilaði LS inn umsögn um frumvarpið og fékk góðan tíma til að kynna efni hennar fyrir nefndinni.


Í upphafi umsagnarinnar segir eftirfarandi:

„Það er skoðun Landssambands smábátaeigenda að ekki sé sanngjarnt að uppfæra sömu aðferðafræði um veiðigjöld á alla útgerðarhópa sem nánast eingöngu veiða bolfisk, án þess að taka að fullu tillit til kvótaleigu, atvinnusköpunar í landi og endanlegs afurðaverðs.  Vegna þessa er frumvarpið stórlega gallað og kallar á frekari vinnu við nýja aðferðafræði sem boðuð er.“  


LS lýsir vonbrigðum með að samhliða frumvarpinu hafi ekki verið lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða eins og áformað hefði verið.  Stjórnvöld hafi boðað breytingar þar sem byggt yrði á samningi við aflahlutdeildarhafa um nýtingarrétt.  Umfjöllun um bæði frumvörpin samtímis hefði auðveldað vinnu við málefnið, með því aðilar fengju heildarsýn á fyrirhugaðar breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegsins.  


LS gagnrýndi í umsögn sinni að fastur afsláttur væri lækkaður, með því væri verið að íþyngja minnstu útgerðunum, þar sem hlutdeild gjaldsins í föstum útgerðarkostnaði hækkar.


Í umsögn landssambandsins er vakin athygli á að gríðarlegur kostnaður krókaaflamarksbáta við þorsk- og ýsuveiðar í formi leigukvóta sé ekki hafður með þegar veiðigjaldastuðlar á þessar tegundir séu reiknaðir.  Af þeim sökum væri óhjákvæmilegt að gera breytingar á frumvarpinu þannig að smábátar væru undanskildir frá greiðslu sérstaks veiðigjalds fyrir ýsu og helmings afsláttar fyrir þorsk.


Umsögn LS er tvískipt þar sem fyrri hluti hennar gerir ráð fyrir að frumvarpið verði afgreitt lítið breytt, en í síðari hluta hennar er boðuð leið til bráðabirgða til eins árs.   Í henni er gert ráð fyrir einu veiðigjaldi sem fari stighækkandi í takt við auknar veiðiheimildir hjá viðkomandi.  Þar verði miðað við þorskígildi.  
Í þessum þætti er sýnt fram á að aðferðin sé í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.


 

efnisyfirlit síðunnar

Hönnun og umsjón: GB hönnun ehf, Laugavegi 13, 101 Reykjavík, augl@smabatar.is

...